Staðan versnað frá byrjun þessa kjörtímabils

„Nú hefur verið staðfest að skuldir þjóðarbúsins eru miklu meiri …
„Nú hefur verið staðfest að skuldir þjóðarbúsins eru miklu meiri en stjórnvöld hafa viljað viðurkenna, mun hærri en þegar þessi ríkisstjórn tók við," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins í ræðu sinni á miðstjórnarfundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýndi ríkisstjórnina í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins sem nú fer fram á Sauðárkróki. Sagði Sigmundur að stjórninni hefði „ekki tekist að nýta þá einstöku möguleika sem Íslendingar höfðu til að vinna á skuldavandanum og eyða kreppunni við upphaf kjörtímabilsins.“

Orðaði Sigmundur það svo að „þess í stað hafi verið potað í einkenni vandans af hálfum hug í nærri fjögur ár, í stað þess að taka fast og örugglega á vandanum sjálfum. Fólk hefði verið hvatt til að nota séreignarsparnað sinn til að fleyta sér áfram um sinn, lán fryst en ekki leiðrétt, í stað þess að skapa ný störf hafi fólk verið fært af atvinnuleysisskrá eða hafi flutt til útlanda í leit að vinnu, fjárfesting sé í sögulegu lágmarki enda hafi allt það fjármagn sem undirstöðuatvinnugreinar hefðu getað nýtt í atvinnuuppbyggingu farið í greiðslu nýrra gjalda. Skattar á stóriðju hafi meira að segja verið innheimtir fyrirfram nokkur ár fram í tímann“.

Skuldirnar meiri en stjórnvöld hafa viljað viðurkenna

Hann gagnrýndi stefnu ríkisstjórnarinnar í skuldamálum. „Í stað þess að taka á snjóhengjunni hafi vandanum verið frestað, gjaldeyrishöftin hert og vextir hækkaðir. Sigmundur sagði að í fjögur ár hafi heimilum og fyrirtækjum verið haldið í óvissu um skuldastöðu sína og þar með framtíðarhorfur,“ sagði Sigmundur.

„Nú hefur verið staðfest að skuldir þjóðarbúsins eru miklu meiri en stjórnvöld hafa viljað viðurkenna, mun hærri en þegar þessi ríkisstjórn tók við. Niðurskurður til grunnstoða samfélagsins á borð við heilbrigðisþjónustu og löggæslu er orðinn hættulega mikill og eldri borgarar og öryrkjar hafa mátt þola mikla kjaraskerðingu,“ sagði Sigmundur Davíð enn fremur í ræðu sinni.

Sigmundur ræddi komandi kjörtímabil. „Allt þetta gerist í landi sem sem ætti að geta skapað mest verðmæti á hvern íbúa af öllum löndum heims. Staðan við upphaf næsta kjörtímabils verði því á margan hátt verri en við upphaf þessa kjörtímabils,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert