Dæmdur í tveggja ára fangelsi

Aron Karlsson var í dag dæmdur í tveggja ára fangelsi og greiðslu skaðabóta fyrir fjársvik í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Alls voru gerðar upptækar tæpar 97 milljónir króna á bankareikningi í eigu AK fasteigna ehf.  Aron var dæmdur til að greiða Arion banka 64.323.376 krónur, Íslandsbanka 48.748.312 krónur og Glitni banka 48.551.779 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum.  Honum er einnig gert að greiða hverjum um sig, 250.000 krónur í málskostnað. Eins er honum gert að greiða verjanda sínum 4.354.850 krónur í málskostnað.

Í janúar 2010 tilkynnti kínverska sendiráðið um kaup á húsnæðinu, Skúlagötu 51, þar sem Sjóklæðagerðin var áður til húsa. Húsið var í eigu félagsins Vindasúlna en þar í forsvari var Aron Karlsson ásamt föður sínum. Fasteignin var veðsett fyrir rúman milljarð króna vegna lána í Arion banka, Íslandsbanka og Glitni. Um miðjan desember 2010 var gengið að tilboði frá indversku fyrirtæki í fasteignina fyrir 575 milljónir króna. Bankarnir féllust á þessa sölu. Skömmu síðar var hins vegar samþykkt tilboð frá kínverska sendiráðinu upp á 875 milljónir. Í millitíðinni var búið að færa fasteignina í nýtt félag, 2007 ehf., í eigu sömu aðila, en það félag hét AK fasteignir.

Lögmaður bankanna þriggja kærði málið til ríkislögreglustjóra en bankarnir höfðu enga vitneskju um tilboð Kínverjanna eða flutning eignarinnar milli félaga. Bankarnir töldu að þeir hafi verið hlunnfarnir um 300 miljónir króna.

Sérstakur saksóknari ákærði Aron fyrir fjársvik með því að hafa sem stjórnarmaður Vindasúlna ehf. blekkt Arion banka hf., Glitni banka hf. og Íslandsbanka hf., veðhafa fasteignar félagsins að Skúlagötu 51, til þess að fallast með sameiginlegum skriflegum yfirlýsingum á að létta af fasteigninni áhvílandi veðum bankanna á fyrsta veðrétti gegn greiðslu samtals 575.000.000 króna upp í fjárkröfur bankanna á hendur Vindasúlum.

Veðréttindin voru samkvæmt fjórum tryggingarbréfum sem hvíldu samhliða á fyrsta veðrétti fasteignarinnar að höfuðstólsfjárhæð 246.000.000 króna hvert eða samtals 984.000.000 króna, öllum útgefnum af Kirkjuhvoli ehf. 3. október 2008 en nafni þess félags var síðar breytt í Vindasúlur ehf.

Blekkingar Aróns fólust í að vekja og hagnýta sér rangar hugmyndir hjá starfsmönnum bankanna annars vegar um verðmæti fasteignarinnar að Skúlagötu 51 og hins vegar eignarhald hennar, samkvæmt ákæru.

Hinn 19. janúar 2010 fór fram leit á starfsstöð ákærða Arons Karlssonar og föður hans á lögfræðiskrifstofu Gísla Gíslasonar héraðsdómslögmanns, fasteignasölunni Fasteignamarkaðnum við Óðinstorg og fleiri stöðum. Jafnframt var ráðist í ítarlega gagnaöflun hjá bankastofnunum og lagt hald á innstæðu  AK fasteigna ehf. á reikningi hjá MP banka hf. 

Sérstakur saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur Aroni í apríl sl. en ekki voru fleiri ákærðir í málinu.

Dómurinn í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert