Dæmd fyrir ærumeiðandi ummæli á netinu

AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt konu á fimmtugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir ærumeiðandi aðdróttanir á netinu gagnvart karlmanni.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að á tímabilinu 14. til 29. mars sl. hafi konan ritað undir ljósmynd af manninum sem var á vefsíðu Mottumars, átaks Krabbameinsfélagsins, sex færslur undir hinum ýmsu dulefnum. Voru ummæli aðgengileg almenningi.

„Drepstu viðbjóður“, „Ljótleikinn er jafn að utan sem innan hjá þér“, og „Hættur að berja konuna og krakkana?“ eru á meðal þeirra ummæla sem konan skrifaði.

Fram kemur að konan hafi skýlaust játað brot sitt. Þá segir að konan hafi hlotið dóm í desember í fyrra fyrir brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa sent syni mannsins í máli þessu smáskilaboð sem hafi verið til þess fallin að særa hann og móðga. Var ákvörðun refsingar konunnar frestað skilorðsbundið í eitt ár. Með brotum þeim sem hún er nú sakfelld fyrir hefur hún rofið skilorð refsidómsins. Verður dómurinn tekinn upp og ákærðu dæmd refsing í einu lagi fyrir bæði málin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Sigurður Haraldsson Sigurður Haraldsson: Ha?
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert