Ekki það sama að svæfa og kyrkja

Lögregla kemur með Annþór fyrir dóminn í dag.
Lögregla kemur með Annþór fyrir dóminn í dag.

Tveir ungir menn fengu 500 þúsund króna sekt hvor og tíu daga til að borga eftir viðskipti við Annþór Kristján Karlsson. Reyndar þvertekur Annþór fyrir þetta og eins mennirnir tveir. En pilturinn sem leiddi mennina tvo til Annþórs staðfesti fyrir dómi hvernig málið var vaxið.

„Þetta byrjaði á því að við vorum tveir félagar sem ætluðum að staðgreiða sendingu,“ sagði nítján ára pilturinn fyrir dómi í gær. Hann lét frá sér 250 þúsund krónur en viðtakendurnir létu peninginn í eigin vasa.

Félagi piltsins, litlu eldri, gaf einnig skýrslu. „Ég var að keyra og sá þá þessa tvo stráka sem rændu vin minn. Ég stoppa þá og hringi í Annþór og bið hann að hjálpa mér að fá þá til að skila þessum pening.“

Það næsta sem gerist er að félagarnir tveir fengu hina mennina tvo til að elta sig inn í Hafnarfjörð, á sólbaðsstofu, til að hitta Annþór. „Ég kem þarna inn og þá er Annþór í símanum. Þeir koma inn og voru inni í svona tvær mínútur. Annþór talaði við þá og sagði þeim að skila þessum peningum og les þeim pistilinn.“

„Átti sér ekki stað neitt ofbeldi þarna?“

„Nei, ekkert ofbeldi,“ sagði félaginn við spurningu saksóknara.

„Hvað með þessa áverka?“

„Þeir hljóta að vera eftir eitthvað annað, það gerðist ekkert þarna inni.“

Sparkað, kýlt og tekið kverkataki

Í ákæru er Annþóri gefið að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa veist að [H], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, tekið um háls hans með kverkataki og haldið honum í takinu uppi við vegg og ekki sleppt fyrr en [H] missti meðvitund. Þá lét hann falla á gólfið og sló hann ítrekað í andlitið þar sem hann lá á gólfinu.

Einnig er Annþóri gefið að sök að hafa veist að [I], slegið hann nokkrum höggum í andlit og líkama, skipað honum að leggjast á gólfið, sparkað í líkama hans og höfuð og staðið á höfði hans þar sem hann lá.

Svo fyrir tilraun til fjárkúgunar með því að hafa krafist þess að [H] og [I] greiddu honum 500 þúsund krónur og frelsissviptingu með því að koma í veg fyrir að mennirnir kæmust út úr húsnæðinu fyrr en þeir samþykktu að verða við kröfu um greiðslu peninganna.

Þegar hefur verið greint frá tveimur árásum sem Annþór er einnig ákærður fyrir í málinu, annars vegar þar sem átta aðrir koma við sögu og svo þar sem fjórir koma við sögu, en aðalmenn eru Annþór og Börkur

Lykilvitni staðfesti skýrslu sína

Umræddur félagi var spurður að því hvers vegna framburður hans hefði breyst frá því hjá lögreglu. Sagðist hann hafa verið þvingaður til að ljúga upp á Annþór hjá lögreglu. Þegar honum var greint frá því að félagi hans, sem var rændur, sagði sömu sögu og eins mennirnir tveir sem urðu fyrir ofbeldinu sagði hann þá einnig hafa sagt ósatt hjá lögreglu.

Pilturinn sem var rændur greindi eins frá, þ.e. að Annþór hefði talað við mennina tvo. En hann staðfesti jafnframt að lögð hefði verið 500 þúsund króna sekt á þá báða og að þeir þyrftu að borga innan tíu daga.

Þá spurði saksóknari: „Þú lýstir því hjá lögreglu hvernig Annþór tók þessa pilta bak við og barði þá og þú sagðist hafa séð þegar hann tók annan þeirra hálstaki. Gerðist þetta?“

Þessari spurningu vildi pilturinn ekki svara og spurði þá saksóknari út í orð hans hjá lögreglu um að vera hræddur við Annþór. „Maður er náttúrlega bara lítið peð í kringum hann.“

Saksóknari vísaði þá í orð piltsins hjá lögreglu um að hann myndi ekki þora að gefa sama framburð fyrir dómi. „En stendur þinn framburður hjá lögreglu?“

„Já.“

Og þar með fékk saksóknari eitt vitni gegn Annþóri, lykilvitni í þessum ákærulið.

Játaði en dró úr lýsingunni

Annþór gaf skýrslu beint á eftir umræddum pilti, en fékk ekki að hlusta á skýrslutökuna. Eftir að hafa rætt við verjanda sinn hélt aðalmeðferðin áfram. Og þegar kom að ákæruliðnum um árásina á sólbaðsstofunni, þá neitaði Annþór ekki.

„Þetta er allt rétt nema það að ég sló [I] utan undir með flötum lófa og tók [H] svæfingataki en sleppti þegar hann var að detta út. Það er stór munur á því að kyrkja og svæfa. Og ég skammaði þá fyrir að stela peningunum,“ sagði Annþór um ákæruliðinn.

Hann harðneitaði hins vegar að hafa sparkað í nokkurn mann liggjandi, hvað þá að standa á höfðinu á einhverjum. Þá sagði hann ekki hafa komið til þess að mennirnir hafi beðið um að fara, þannig það geti ekki verið frelsissvipting.

Annþór hafnaði því einnig alfarið að hafa lagt á þá sektir. „Ég sagði þeim að borga það til baka sem þeir stálu. Ég geng ekki um ljúgandi eins og þú,“ sagði hann við saksóknara og var ósáttur við orðalag í ákærunni.

Nánar spurður út í hálstakið þá gaf Annþór ítarlegar leiðbeiningar „Ef þú tekur einhvern og kyrkir hann þá tekur það þrjátíu til fjörutíu sekúndur, en svona fjórar til fimm sekúndur að svæfa mann.“

Annþór sagðist ekki hafa slegið manninn ítrekað þegar hann sofnaði í fanginu á honum og féll í gólfið. „Ekki einu sinni til að vekja hann?“

„Jú, en það var ekki að slá hann. Það er munur á því að slá og slá. Á skalanum einn til tíu var þetta tveir.“

Hausinn mundi ekki atvik

Umræddir tveir menn sem komu á sólbaðsstofuna til að spjalla við Annþór um stuld sinn gáfu einni skýrslu fyrir dómi. En frekar lítið var á framburði þeirra að græða, þ.e. fyrir saksóknara.

„Ég man voða lítið. Þetta var bara rifrildi,“ sagði [H] og sagðist hafa verið í miklu rugli á þessum tíma.

Saksóknari vísaði í lögregluskýrslu þar sem hann greindi frá ofbeldi og spurði hvernig stæði á því að þetta væri allt gleymt. „Fyrirgefðu að hausinn á mér muni ekki eftir þessu,“ sagði [H] þá.

Hann mundi þó eftir að hafa farið á sólbaðsstofuna og að hann hitti Annþór. Þá var hann spurður hvernig hafi staðið á því. „[K] og strákurinn sögðu okkur að koma og tala um pening sem við tókum. Við keyrðum þangað en ég man ekki meira, var svo út úr lyfjaður.“

Hann kannaðist ekki við að Annþór hefði lagt á hann skuld og þá spurði saksóknari, nokkuð pirraður og með þjósti, hvað hann eiginlega myndi. „Ég man bara eftir að koma þarna, vorum eitthvað að rífast og tala um þetta og ég man það ekki.“

Þar með lauk þeirri skýrslutöku.

Veitti sér áverka sjálfur - með aðstoð

Hinn maðurinn, [I], mundi aðeins meira. Hann sagði atvik hins vegar ekki hafa verið eins og þeim er lýst í ákæru. „Við vorum báðir í miklu rugli og ég ákvað að segja mjög rangt frá í skýrslutöku.“

Hann sagði Annþór hafa ýtt aðeins við sér þannig að hann datt í gólfið. „En ég stóð bara upp. hann var pirraður og ég skildi það alveg, við vorum ekki í rétti þarna.“

Saksóknari spurði út í áverkavottorð sem [I] fékk á bráðamóttöku nokkrum dögum eftir ferðina á sólbaðsstofuna.

„Voru þessir áverkar vegna þessa?“

„Nei, ég gerði þá sjálfur Ég þurfti peninga, var í feitu sulli á þessum tíma en er edrú í dag.“

„Hvaða áverkar voru þetta?“

„Þetta var skráma á eyra, minnir mig.“

„Nú kemur fram í læknisvottorði að þú hafi verið með áverka sem samrýmast spörkum og hnefahöggum í höfuðið. Veittir þú þér sjálfur þá áverka?“

„Ekki ég sjálfur, félagi minn hjálpaði mér.“

„Hver var það?“

„Ég segi það ekki. Kemur ekki til greina, ég ætla ekki að koma öðrum í þetta rugl.“

Og fleira kom ekki úr þeirri skýrslutöku.

Væntanlega litið til játningar

Það sem dómarar þurfa að meta í þessum ákærulið er framburður lykilvitnisins sem staðfesti það sem hann sagði hjá lögreglu, játning Annþórs og svo verður eflaust litið til skýrslna hjá lögreglu hjá öðru vitnum, enda mun dómurinn eflaust líta svo á að framburður þeirra sé afar ótrúverðugur - svona þar sem hann stangast á við játningu meints árásarmanns.

Lögreglumenn í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Lögreglumenn í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert