Dæmd fyrir brot á barnaverndarlögum, en hélt áfram að kenna

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Kvenkyns kennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla var í gær dæmd fyrir ærumeiðandi aðdróttanir á netinu gegn karlmanni. Konan hlaut dóm í desember í fyrra fyrir brot gegn barnaverndarlögum, en þá sendi hún syni mannsins smáskilaboð sem voru talin hafa verið til þess fallin að særa hann og móðga. Þrátt fyrir þann dóm hélt konan starfi sínu við skólann.

Steinn Jóhannsson, skólameistari Fjölbrautarskólans við Ármúla segist ekki geta tjáð sig um málið. „Ég get ekkert tjáð mig um þetta, þetta er svo nýskeð og við erum að skoða þetta,“ segir Steinn, spurður að því hvort dómurinn muni hafa áhrif á starfsskilyrði konunnar við skólann. 

Hélt konan starfi sínu, þrátt fyrir að hafa hlotið dóm í fyrra fyrir að brjóta barnaverndarlög? „Já, það er rétt.“ 

Fram kemur í dómi héraðsdóms að í mars síðastliðnum hafi konan ritað undir ljósmynd af manninum sem var á vefsíðu Mottumars, átaks Krabbameinsfélagsins, sex færslur undir hinum ýmsu dulefnum. Ummælin voru aðgengileg almenningi.

„Drepstu viðbjóður“, „Ljótleikinn er jafn að utan sem innan hjá þér“, og „Hættur að berja konuna og krakkana?“ eru á meðal þeirra ummæla sem konan skrifaði.

Munur á broti í starfi eða utan starfs

Frá Kennarasambandi Íslands fengust þær upplýsingar um að gerður væri greinarmunur á því hvort um væri að ræða brot í starfi eða utan starfs. Ekkert siðaráð væri á vegum sambandsins, sem dæmdi í málum sem þessum. Siðareglur Kennarasambandsins væru settar til leiðsagnar, sem leiðbeinandi umræðugrundvöllur, en starfandi kennurum beri engin lagaleg skylda til að fara eftir þeim.

Tvö önnur mál

Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem kennarar láta umdeild ummæli falla á netinu. Tvö slík mál hafa vakið athygli, öðrum fremur, en það eru mál Snorra Óskarssonar grunnskólakennara við Brekkuskóla á Akureyri og Baldurs Hermannssonar, sem kenndi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. 

Snorra var sagt upp störfum  í sumar eftir að hafa verið sendur í leyfi í febrúar. Það var gert í kjölfar bloggskrifa Snorra en þar skrifaði hann: „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin er ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“ 

Snorri var kærður vegna ummælanna, en þeim kærum var vísað frá. Hann vísaði málinu til innanríkisráðuneytisins í byrjun október og bíður nú svara. „Ég fór fram á að ráðuneytið úrskurðaði um hvort uppsögnin teldist lögmæt og nú bíð ég eftir svari frá ráðuneytinu, boltinn er hjá Ögmundi,“ segir Snorri.

„Ekki bara mitt mál“

Hann segir að Kennarasamband Íslands hafi átt í viðræðum við Akureyrarbæ um bætur honum til handa. „Þeim (KÍ) er ljóst að þetta er ekki uppsögn samkvæmt kjarasamningi. Akureyrarbær er ekki tilbúinn til að ljá máls á því. Næsta skref er að banka upp á hjá dómstólum. Ég lít þannig á að þetta sé ekki bara mitt mál. Þetta er mál sem snertir alla kennarastéttina, hvort kennarar megi eiga þetta í vændum,“ segir Snorri.

„Ummæli mín hafa kannski ekki verið samþykkt af yfirvöldum. En ég hef ekki verið dæmdur fyrir neitt og ég tel allt annað mál að vera með skoðanir sem aðrir samþykkja ekki eða að vera með meiðandi ummæli. Ég vil ekki viðurkenna það, ég hef engan sakað um illgjörðir.“

Umdeild ummæli framhaldsskólakennara

Ummæli Baldurs á Facebooksíðu snemma árs í fyrra um að  „undir niðri dauðlangaði“ tiltekna konu til að láta nauðga sér þóttu mörgum óviðeigandi, sé tekið mið af fjölmörgum umræðum um ummælin á ýmsum net- og spjallsíðum.

Snorri Páll Jónsson, fyrrverandi nemandi skólans, skrifaði grein í Fjarðarpóstinn nokkru síðar þar sem hann segir að með slíkum skrifum viðurkenni Baldur jákvætt viðhorf sitt til kynferðislegrar áreitni og að hann komist ekki hjá því að varpa þeirri spurningu til samstarfs- og yfirmanna Baldurs um hvað þeim finnist um slíkar yfirlýsingar. 

Í yfirlýsingu, sem birt var á vefsíðu Flensborgarskólans í kjölfar skrifa Snorra Páls segir að skólinn taki á engan hátt afstöðu í málinu að öðru leyti en að „minna starfsmenn sína, nemendur,- og aðra, á að gæta hófs í orðum sínum og framgöngu. Ekki síst að gæta þess að framganga þeirra skaði ekki skólann og aðra sem ekki eiga hlut að máli.“

Frétt mbl.is: Dæmd fyrir ærumeiðandi ummæli á netinu

Fjölbrautaskólinn við Ármúla.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla. www.fa.is
Snorri Óskarsson
Snorri Óskarsson mbl.is/Jóhannes.tv
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert