Ungir ökumenn á réttri leið

Umferðarslysum sem ungir ökumenn eiga aðild að hefur fækkað.
Umferðarslysum sem ungir ökumenn eiga aðild að hefur fækkað. AFP

Árangurinn hér á landi af sérstökum námskeiðum vegna akstursbanns ungra ökumanna er með því besta sem þekkist í Evrópu. Algengt er krakkarnir sem sitja námskeiðið hafi borgað 1-2 milljónir í hraðasektir og sumir hafa setið í fangelsi fyrir umferðarlagabrot. Frá því námskeiðin voru innleidd 2007 til ársloka 2011 sátu þau 787 ungir ökumenn. 

„Krakkarnir koma almennt með frekar neikvætt viðhorf inn á námskeiðið, en þau fara jákvæð. Þau kveðja með handabandi eða jafnvel knúsa mann því þau eru svo glöð í lok námskeiðs,“ segir Sigurður Jónasson ökukennari, sem fjallaði um árangur námskeiðsins á Umferðarþingi 2012.  

Taka meira mark á jafnöldrunum

Um 4% nýrra ökumanna enda á að fara á námskeiðið vegna brota áður en þau fá fullnaðarskírteini. Námskeiðin samanstanda af 12 kennslustundum þar sem gerð er krafa um 100% mætingu og 100% skil á verkefnum. Að sögn Sigurðar er námskeiðið ekki hugsað sem refsing heldur sem uppbyggjandi. Námskeiðið er allt öðruvísi en sjálft ökunámið, enda er litið svo á að þátttakendur séu búnir að læra að keyra en hafi ekki náð að tileinka sér það sem var kennt í ökuskóla.

„Krakkarnir eru fengnir til að komast sjálfir að eigin niðurstöðu. Við komum inn á ábyrgð, ákvarðanatöku, áhættu og afleiðingar, en aðeins 40% af námskeiðinu er innlegg kennara. 60% eru umræður milli þátttakenda þar sem þau komast sjálf að því að þau séu að gera rangt. Harðasti dómurinn er milli þátttakendanna sjálfra, þau taka meira mark á félögum sem dæma þau en einhverjum körlum og kerlingum.“

Foreldrar og krakkarnir sjálfir ánægðir

Um 70% krakkanna á námskeiðinu eru þar vegna ölvunar- og vímuaksturs. Sigurður segir að yfirleitt hafi þau neytt bæði áfengis og fíkniefna áður en þau settust undir stýri og hefur þeim fjölgað hlutfallslega, úr 68 árið 2008 í 92 árið 2011. Tæp 20% þátttakenda eru á námskeiðinu vegna hraðaksturs og þeim hefur fækkað, úr 71 árið 2008 í 25 2011. Hlýtur það að teljast fagnaðarefni að færri ungir ökumenn aki of hratt.

Um 10% eru svo á námskeiðinu vegna akstursbanns vegna 4 refsipunkta. Ekki er óalgengt að sögn Sigurðar að þátttakendur hafi þurft að greiða 1-2 milljónir króna í sektir og sumir hafa verið dæmdir til fangelsisvistar fyrir umferðarlagabrot.

Reynslan af námskeiðunum hefur verið afar góð og árangurinn leynir sér ekki, 50% þeirra sem sitja námskeiðin brjóta ekkert af sér fyrsta árið eftir að þau fá prófið aftur. Sigurður segir þetta einn besta árangur sem um getur í Evrópu og önnur lönd farin að horfa hingað eftir fyrirmynd. „Við fáum líka mjög góð viðbrögð, sérstaklega í seinni tíð, frá foreldrum og krökkunum sjálfum sem hafa samband og lýsa mikilli ánægju eftir námskeiðin.“

Unga fólkið stendur sig

Vert er líka að benda á í þessu samhengi að góður árangur hefur náðst undanfarin ár við fækkun umferðarslysa með aðild ungra ökumanna á aldrinum 17-20, líkt og mbl.is sagði frá í gær. Markmið Umferðaröryggisáætlunar er að fækka slysum þessa hóps um 5% á ári fram til ársins 2022. „Unga fólkið stendur sig,“ segir Sigurður. 

Hann segir þó enn rými til umbóta gagnvart ungum ökumönnum og nefnir sem dæmi að eftirfylgni vanti við 18-21 árs ökumenn. Algengt sé að ungir ökumenn, sem fá prófið 17 ára, keyri lítið sem ekkert fyrsta árið en fái samt fullnaðarskírteini að því loknu. Við 18 ára aldur eignist fleiri meiri pening, kaupi eigin bíl og fari þá að keyra meira og jafnvel af gáleysi.

„Við myndum vilja sjá að handhafar fullnaðarskírteina færu líka á námskeið eftir ítrekuð brot, af því að við sjáum að þetta virkar.“

Á námskeiðunum er gengið út frá því að þátttakendur séu …
Á námskeiðunum er gengið út frá því að þátttakendur séu búnir að læra að keyra en hafi ekki tileinkað sér það sem kennt var í ökuskóla. mbl.is/Júlíus
Frá hópakstri í minningu þeirra sem látið hafa lífið í …
Frá hópakstri í minningu þeirra sem látið hafa lífið í umferðarslysum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert