Óþolandi að trúnaður sé rofinn

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins ræðir við aðra þingmenn á …
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins ræðir við aðra þingmenn á Alþingi. mbl.is/Ómar

Furðulegt er fyrir þingmann að lesa í fjölmiðlum um hver samningsafstaða Íslands sé gagnvart ESB í landbúnaðarmálum, þegar þingmennirnir sjálfir eru bundnir trúnaði um málið. Þetta sagði Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Framsóknarflokksins á þingfundi í morgun.

Neytendasamtökin sögðu frá því á vef sínum í gær að fulltrúar bænda hefðu gengið út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Ástæðan hafi verið sú að formaður starfshópsins upplýsti að í  samningsafstöðu Íslands yrði ekki krafist áframhaldandi tollverndar fyrir landbúnaðarvörur frá ESB-löndum.

Gunnar Bragi sagði þetta undarlegt mál sem rétt væri að krefjast skýringar á. „Við [þingmenn í utanríkismálanefnd] erum bundin trúnaði og megum ekki ræða samningsafstöðuna, en svo eru fulltrúar samningshópa að tala um þetta um allar grundir. 

Fullkomlega óþolandi ástand

Ragnheiður Elín Árnadóttir þingmaður Sjálfstæðisflokks tók undir með Gunnari Braga og sagði það „óþolandi að lesa um það á vefsíðu samtaka úti í bæ hver samningsafstaða Íslands sé“.

„Neytendasamtökin virðast einhverra hluta vegna ekki bundin þeim trúnaði sem við í utanríkismálanefndinni erum bundin. Þetta ástand er fullkomlega óþolandi og ég lýsi því her yfir að ég neita því að viðhafa þennan trúnað þegar í ljós kemur að um þetta er rætt á opinberum vettvangi hingað og þangað um bæinn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert