Uppboðið gekk frábærlega

Uppboð til styrktar Ingólfi Júlíussyni gekk framar öllum vonum.
Uppboð til styrktar Ingólfi Júlíussyni gekk framar öllum vonum. Pressphotos.biz / Geirix

Uppboð sem haldið var í kvöld til styrktar Ingólfi Júlíussyni, ljósmyndara og margmiðlunarhönnuði, gekk „frábærlega“ að sögn Steingríms Sævarrs Ólafssonar, upplýsingafulltrúa hópsins sem stóð að baki uppboðinu. Fullt var út úr dyrum á Hótel Borg og hvert einasta verk seldist. 

Steingrímur segir að allir séu himinlifandi með það hvernig uppboðið hafi gengið. „Það var setið í hverju sæti og staðið meðfram veggjum og frammi á gangi, þannig að það er óhætt að segja að það hafi verið húsfyllir á Hótel Borg. Það seldist hvert einasta verk og mörg þeirra fóru á mun hærra verði en við þorðum að vona og flest þeirra fóru á því verði sem við vonuðumst eftir.“

Steingrímur segir að vegna þess að fólk hafi tvo daga til þess að gera upp við Gallerí Fold sem sá um uppboðið vilji hann ekki gefa upp endanlega upphæð sem hafi safnast, því að peningurinn sé ekki í hendi fyrr en allir hafi gert upp. „Það sem við getum sagt er að þetta er væn sjö stafa upphæð og það eru allir himinlifandi.“

Steingrímur bætir við að allir þeir listamenn og þeir sem hafi gefið verk sín og vörur eða veitt aðra aðstoð eigi heiður skilinn og innilegar þakkir því að uppboðið hefði ekki verið mögulegt án þeirrar hjálpar. „Við þökkum öllum þeim sem lögðu sitt af djúpri virðingu og við vitum að Ingólfur og fjölskylda hans eru mjög ánægð með þeirra framlag og djúpt snortin og það erum við líka sem stóðum að uppboðinu.“

Ingólfur greindist með bráðahvítblæði í byrjun október og hefur dvalið á sjúkrahúsi síðan. Félagar Ingólfs í stétt ljósmyndara vildu styrkja hann og tóku því höndum saman og gáfu verk sín á uppboðið. Á meðal þeirra muna sem voru boðin upp var málverk eftir Tolla og myndavél sem 12 helstu ljósmyndarar landsins hafa tekið myndir á, en filman er enn óframkölluð í vélinni.

Frétt mbl.is: Styðja við bakið á Ingólfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert