„Búið að vera skelfilegt ár“

Guðmundur Jónsson, bóndi í Fagraneskoti, að gefa heyrúllur. Myndin var …
Guðmundur Jónsson, bóndi í Fagraneskoti, að gefa heyrúllur. Myndin var tekin í september. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er búið að vera skelfilegt ár, langversta ár sem ég hef upplifað síðan ég fór að búa. Maður eru orðinn ansi þreyttur,“ segir Guðmundur Jónsson, bóndi í Fagraneskoti í Aðaldal. Heyskapur hjá honum var rýr í sumar vegna þurrka, hann missti tæplega 120 kindur í óveðrinu í september og í nóvember hefur verið linnulítil stórhríð.

Guðmundur segir að menn hafi haft á orði í haust þegar bændur voru búnir að vera að smala og leita að fé í margar vikur, að nóvember yrði þó alla vega góður. Það hafi hins vegar ekki gengið eftir. „Tíðarfarið í haust er búið að vera með ólíkindum. Það er búið að vera meira og minna stórhríð allan nóvember.“

Gríðarlegur snjór er yfir öllu og miklir skaflar heima við hús. Guðmundur segist ekki muna eftir svona miklum snjó síðan hann fór að búa. „Maður er mokandi snjó allan daginn til að geta komið inn heyrúllum. Maður eyðir olíu alveg út eitt. Olíureikningarnir í haust eru margfaldir,“ segir Guðmundur.

Búinn að gefa hrossum jafnmikið í haust og allan fyrravetur

Þessari ótíð fylgir margvíslegur kostnaður. Guðmundur hefur miklar áhyggjur af heyforðanum, en allt fé í Fagraneskoti var komið á gjöf í október. Guðmundur segir að þetta sé þremur vikum fyrr en í fyrra. Það muni um hverja viku þegar féð sé margt.

„Ég er með nokkur hross og hef oft tekið þau inn um áramót. Ég er hins vegar núna að verða búinn að gefa þeim jafnmikið það sem af er vetrar eins og ég gaf þeim allan fyrravetur.“

Guðmundur segist hafa gefið hrossunum úti í haust, en segist verða að fara taka þau inn því að hrossin geti gengið yfir allar girðingar vegna þess að þær séu á kafi í snjó.

„Ég á ekki nóg hey fyrir veturinn. Það er alveg ljóst. Ég er búinn að tryggja mér hey, en ég gæti þurft meira,“ segir Guðmundur.

Heyskapur gekk illa í Fagraneskoti í sumar eins og víðar í Þingeyjarsýslum vegna lélegrar sprettu. Sáralítið rigndi í allt sumar. „Það fór ekki að spretta fyrr en í byrjun september, en þá skall á þetta óveður. Sumir náðu ekki einu sinni seinni slætti,“ segir Guðmundur.

Missti 114 kindur í óveðrinu í september

Guðmundur í Fagraneskoti var með um 1200 kindur í sumar, lömb og ær. Hann vantar 114 kindur, sem drápust í óveðrinu í september. Ekki var gott ástand á öllum kindum sem grafar voru úr fönn vikurnar eftir óveðrið.

„Ég er með um 40 lömb sem ég gat ekki slátrað vegna þess að þau voru svo horuð eftir að hafa verið föst í snjó um lengri eða skemmri tíma. Þau bætast því við í fóðrun í vetur. Þessi lömb voru ekki söluvara og ég er að reyna að bæta þau og vonandi get ég lógað þeim í vetur. Þau hafa flest tekið vel við sér, en þó ekki öll. Eitt drapst fljótlega og annað virðist ekki ætla að jafna sig.“

Guðmundur keypti nokkur líflömb í haust norður í Axarfirði til að halda við stofninum, en hann er með um 450 ær á fóðrum.

Bændur bíða eftir bótum vegna fjárskaðans

Bændur á Norðurlandi sem urðu fyrir fjárskaða í september bíða enn eftir bótum úr Bjargráðasjóði, en atvinnuvegaráðuneytið á eftir að staðfesta reglur sem miðað verður við við greiðslu skaðabóta. Sláturleyfishafar eru búnir að greiða til bænda fyrir lömb sem fóru í sláturhús í haust.

Guðmundur segir aðkallandi að bæturnar verði greiddar sem fyrst. „Ég hef trú á að það skapist ófremdarástand víða núna um mánaðamótin. Menn þurfa að standa í skilum með afborganir af lánum. Sumir skulda áburðinn síðan í vor, en margir stilla greiðslur af þannig að þeir greiða fyrir áburð og fleira í lok október og nóvember þegar sauðfjárinnleggið skilar sér.“

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, segir að samtökin hafi sent bréf til birgja og lánastofnana og beðið þá að sýna þolinmæði gagnvart bændum sem urðu fyrir fjárskaða og bíða eftir greiðslu skaðabóta.

"Maður er mokandi snjó allan daginn," segir Guðmundur. Ljósmynd/Guðmundur Jónsson
Þessir bílar á hlaðinu í Fagraneskoti eru á kafi í …
Þessir bílar á hlaðinu í Fagraneskoti eru á kafi í snjó. Ljósmynd/Guðmundur Jónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert