Tekur gjöfina og stingur í vasann

Jólagjafir.
Jólagjafir. Mbl.is/ Kristinn

„Mundu að seljandinn er búinn að fá greitt fyrir gjafabréfið og ef hann neitar þér um þjónustu jafngildir það því að hann taki gjöfina þína og stingi henni í vasann sinn.“ Þetta segja Neytendasamtökin sem fara yfir jólagjafakaup á vefsvæði sínu.

Þar segir að það séu nokkur atriði sem bæði seljendur og neytendur ættu að hafa í huga þegar kemur að því að gjafakortum. Flestar kvartanir sem Neytendasamtökin fá vegna gjafabréfa snúast um að seljendur neita að taka við gjafabréfi þar sem gildistíminn er liðinn.

„Spyrja má hvort það sé yfirhöfuð réttlátt að seljandi ákveði einhliða gildistíma á gjafabréf. Viðskiptavinur hefur jú lagt pening inn í fyrirtækið og hann á rétt á að fá andvirðið greitt út aftur í formi vöru eða þjónustu. Seljandi sem neitar að taka við gjafabréfi á þeirri forsendu að það sé útrunnið ber ekki mikla virðingu fyrir viðskiptavini sínum.“

Neytendasamtökin telja óeðlilegt að gildistími á gjafabréfi sé styttri en fjögur ár en það er almennur fyrningarfrestur á kröfum. Fólk er hvatt til að skoða gildistímann áður en fjárfest er í gjafabréfi og hika ekki við að gera athugasemdir og fara fram á lengri gildistíma ef svo ber undir.

Þá minna samtökin að óskynsamlegt getur verið að liggja á gjafabréfum og betra að nýta þau sem fyrst, sé það mögulegt. Bæði geti andvirðið rýrnað auk þess sem sú hætta er ávallt fyrir hendi að fyrirtækið verði gjaldþrota. „Fari svo er krafan í flestum tilfellum töpuð.“

Hefð myndast um skil á jólagjöfum

Helstu vandræðin eru hins vegar í tengslum við skil á jólagjöfum er þegar útsölur hefjast og deilt er um hvort upphaflegt verð vörunnar eigi að vera á inneignarnótunni eða útsöluverð. „Sú hefð hefur skapast að neytandi getur fengið upphaflegt verð vörunnar á nótuna en seljandi getur aftur á móti ákveðið að ekki megi nota nótuna fyrr en útsölu lýkur.“

Langflestir seljendur gefa neytendum færi á að skila og skipta ógölluðum vörum þótt ekki sé kveðið á um neitt slíkt í lögum. Mikilvægt sé þó að fá skilamiða á gjafir því það auðveldar skil ef gjöfin fellur ekki í kramið.

Þá hafa seljendur leitað til Neytendasamtakanna til að spyrjast fyrir um það hvað skilamiðinn eigi að gilda lengi, þ.e. hvað sé eðlilegur skilafrestur á jólagjöfum. Ekki eru þó til neinar reglur um slíkt en Neytendasamtökin telja að verslanir ættu að gefa viðskiptavinum sínum rúman frest.

Það fá eflaust margir bók í jólagjöf, og sumir vilja …
Það fá eflaust margir bók í jólagjöf, og sumir vilja þá skila. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert