Um 100 km að baki á átta dögum

Vilborg á ferð með sleða.
Vilborg á ferð með sleða.

Vilborgu Örnu Gissurardóttur miðar vel áfram á ferð sinni um suðurskautið en í  dag hóf hún sinn níunda göngudag en í gærkvöldi hafði hún lagt 98,5 km að baki  af 1.140 km gönguleið frá upphafsstað göngunnar við Hercules Inlet að  suðurpólnum.

 Gærdagurinn var krefjandi fyrir Vilborgu eða eins og segir á heimasíðu hennar www.lifsspor.is:

 „Mikill brasdagur að baki. Byrjaði í talsverðum vindi og mjög erfiðu skyggni þar sem yfirborð jökulsins sást ekki. Því þarf að fara varlega þar sem maður sér ekki hvar maður stígur. Ég flaug auðvitað á hausinn á einum skaflinum og festi líka sleðana á milli skafla. Það þurfti því mikla þolinmæði og orku til að komast áfram. Það er líka erfitt að halda stefnu við svona aðstæður og því var ég með áttavitastatív sem auðveldaði mér málið. Ég komst áfram um 11,5 km og minnti sjálfa mig á að hvert skref í rétta átt færir mig nær takmarkinu. En óförunum var ekki lokið. Þegar ég var að tjalda kom í ljós að ein súlan var brotin. Nú tóku við viðgerðir og það blés 11 m/s. Það var napurt verk og tók góðan tíma. En allt gekk að lokum og sjaldan verið betra að komast inn og í ömmusokka.”

 Vilborg heldur úti dagbók á heimasíðu sinni www.lifsspor.is  á meðan á leiðangri hennar stendur ásamt því að þar er einnig hægt að fylgjast með ferðalagi hennar með staðsetningartæki sem hún ber á sér. 

 Vilborg nýtur stuðnings við leiðangurinn frá ALE (antarctic logistics and expeditions)  en hún er í daglegu sambandi við tengillið í búðunum á meðan á ferð hennar á suðurpólinn stendur.  Þar fær hún m.a upplýsingar um staðsetningu og veðurspá næstu daga.

 Á meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Líf styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans – og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908 1515 (1.500 kr.) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is

 Áætlað er að ferð Vilborgar frá Hercues Inlet á syðsta punkt jarðar taki um 50 daga og að á hverjum degi gangi hún um 22 km að meðaltali. Hún mun draga á eftir sér tvo sleða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert