Kvótamálið í ríkisstjórn á morgun

Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu í um tvo klukkutíma í kvöld á …
Þingflokkar stjórnarflokkanna funduðu í um tvo klukkutíma í kvöld á Alþingi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þingflokkar stjórnarflokkanna sátu á þingflokksfundum í kvöld frá kl. 19 til að verða 21 til að ræða þau mál sem brenna í þinginu nú á næst síðasta degi þingsins þar sem hægt er að leggja fram frumvörp til afgreiðslu.

Áður hafði ríkisstjórnin verið kölluð saman til fundar kl. 18, en að sögn þeirra ráðherra sem tjáðu sig við blaðamann á leiðinni út af fundinum mun hvorki kvótafrumvarpið, svokallaða né tillaga um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna úr 7% í 14% hafa verið rætt á fundi ríkisstjórnar heldur hafi ráðherrar þar einungis lagt fram frumvörp sem síðan verði lögð fyrir þingið. Eins og sakir standa er ekki meirihluti fyrir því síðarnefna á þinginu og tæplega hægt að segja að sátt ríki um þær tillögur að breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem hafa legið uppi á borðum undanfarnar vikur.

Þingmenn vörðust frétta

Það er óhætt að segja að það hafi ríkt dálítið rafmögnuð stemning í þinghúsinu í kringum þingflokksherbergi stjórnarflokkanna. Dyr opnuðust og lokuðust á víxl og þingmenn komu og fóru, ýmist á milli herberga eða inn og út úr húsi, allt meðan á fundinum stóð. Blaðamaður náði tali af fjölda þingmanna og ráðherra sem þó vildu mjög lítið segja um efni eða niðurstöður funda. Þó fékkst staðfest að kvótamálið væri eitt þeirra mála sem væri rætt á fundunum, en Ólína Þorvarðardóttir hefur lýst því yfir að hún vilji sjá breytingar á því ef hún eigi að styðja það í þinginu. Raunar hefur Jón Bjarnason, úr þingflokki Vinstri grænna, einnig gert það.

Kvótamálið verður rætt á morgun

Enginn þingmaður vildi staðfesta með beinum hætti að þingflokkarnir hefðu afgreitt málin í kvöld, en einn sagði þó að málið yrði rætt í ríkisstjórn á morgun og að hann byggist við að það kæmi að því loknu til umræðu í þingflokkunum. Það bendir því allt til þess að umræðu um það sé ekki lokið og alls óvíst að það takist að leggja það fram á morgun, þegar fresturinn til þess rennur út.

Ólína Þorvarðardóttir vildi ekki tjá sig um þær tillögur sem voru ræddar á fundinum þegar hún kom af honum en sagði ekki útilokað að málið yrði lagt til þinglegrar meðferðar á morgun.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Ólína Þorvarðardóttir
Jón Bjarnason
Jón Bjarnason mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert