Pólitíkin góður skóli fyrir hamfaramál

Herdís Sigurjónsdóttir
Herdís Sigurjónsdóttir mbl.is

Herdís Sigurjónsdóttir bæjarfulltrúi hefur tekið þá ákvörðun að hætta störfum nú þegar eitt og hálft ár er eftir af kjörtímabilinu. Herdís hefur setið í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðsflokkinn í rúm 14 ár. Hún mun óska lausnar fljótlega og hætta um áramótin. Þetta kemur fram í Mosfellingi, bæjarblaði Mosfellinga í dag. 

Herdís segir ákvörðunina hafa verið tekna nokkuð skyndilega en hún standi á krossgötum.   „Mér bauðst að starfa hjá VSÓ Ráðgjöf, sem er frábær vinnustaður. Það eru spennandi verkefni á döfinni og eins er mér veitt svigrúm til að sinna þeim rannsóknarverkefnum sem ég hef verið að starfa að hér heima og erlendis og að ljúka við doktorsnám mitt sem fjallar um hamfaramál. Þangað stefnir hugurinn og því valdi ég þá leið,“ segir Herdís í viðtali við Mosfelling.

Pólitíkin góður skóli fyrir hamfaramálin

Hún hefur um langt skeið unnið að hamfaramálum hjá Rauða krossinum og er nú í doktorsnámi með áherslu á hamfarastjórnun. Í viðtalinu segir Herdís þó að seta hennar í bæjarstjórn sé besti skóli sem hún hafi verið í og trúlega besti skóli sem hægt sé að hugsa sér fyrir hamfaramálin. 

„Að þekkja innviði og skipulag samfélaga frá öllum hliðum, hlutverk kjörinna fulltrúa og embættismanna í þjónustu og samskiptum við borgarana. Samskipti ríkis og sveitarfélaga, hlutverk félagasamtaka og samfélagslega mikilvægra fyrirtækja. Allt þetta er lykillinn að velgengni og samhæfingu þegar kemur að stoð við fólk eftir hamfarir eða önnur samfélagsleg áföll.“

Kolbrún Þorsteinsdóttir varabæjarfulltrúi tekur sæti Herdísar í bæjarstjórn um áramótin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert