Subway lætur undan kröfum stúdenta

Skyndibitakeðjan Subway hefur ákveðið að framlengja tilboð á báti nóvembermánaðar, svokölluðum BMT-báti, sem nýtur sérlega mikilla vinsælda á meðal stúdenta sem eru fjölmennir í hópi viðskiptavina Subway á Íslandi. Stúdentar eru nú í óðaönn í prófundirbúningi og var því ákveðið að verða við ósk þeirra.

Þegar ljóst var að BMT-báturinn yrði ekki á tilboði í desember upphófst hrina mótmæla sem áttu upptök sín á Facebook. Samband íslenskra Subwaysnæðandi stúdenta (SÍSSS) fór mikinn í mótmælum sínum og í framhaldi af því ákvað Stjarnan ehf., einkaleyfishafi Subway á Íslandi, að framlengja nóvembertilboð á báti mánaðarins til 15. desember.

Í tilkynningu frá Subway er haft eftir Gunnari Skúla Guðjónssyni, framkvæmdarstjóra Subway á Íslandi, að þetta sé gert til að koma til móts við námsmennina sem séu einn mikilvægasti viðskiptavinahópur Subway.

Auk BMT-bátsins vinsæla mun Subway einnig bjóða upp á túnfiskbát sem bát mánaðarins í desember, eins og áður var ákveðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert