Þyrfti jafnvel fjóra flokka

Verði niðurstöður þingkosninganna í vor á hliðstæðum nótum og skoðanakannanir hafa bent til undanfarna mánuði er útilokað að hægt verði að mynda ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins með færri en þremur flokkum. Hins vegar er allt eins líklegt að fjóra flokka þyrfti til ef mynda ætti stjórn án sjálfstæðismanna.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun mælist Sjálfstæðisflokkurinn með tæplega 36% fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Capacent Gallup en það er svipað og hann hefur mælst með undanfarin tvö ár. Mest hefur fylgi flokksins farið í 39% á kjörtímabilinu sem gerðist síðastliðið vor en minnst fór það í 25% í maí 2009. Flokkurinn fékk 23,7% í síðustu þingkosningum í apríl sama ár.

Framsóknarflokkurinn er með 12,7% fylgi nú samkvæmt þjóðarpúlsinum sem er með því minnsta sem flokkurinn hefur mælst með á kjörtímabilinu. Mest fór fylgið í 18% í september 2009 og 17,6% í júní 2011 en minnst mældist það í september 2010 eða 11,8%. Fylgi flokksins var 14,8% í þingkosningunum 2009.

Þriðjungur styður ríkisstjórnina

Samfylkingin mælist nú með 22,5% fylgi sem er hliðstætt og flokkurinn hefur fengið í mörgum skoðanakönnunum undanfarin tvö og hálft ár. Lægst hefur fylgi Samfylkingarinnar farið í 17,5% á kjörtímabilinu sem gerðist síðast í mars á þessu ári en mest í 27% í ágúst 2009 en fylgi flokksins í síðustu kosningum var 29,8%.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist nú með 10,6% og hefur ekki mælst minna síðan í maí á þessu ári þegar það var 10,4% en þá mældist það minnst á kjörtímabilinu. Mest var fylgi VG í apríl 2010 þegar það var 28%. Flokkurinn fékk um 21,7% síðustu þingkosningum. Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir nú 33,1% fylgi en fylgi við ríkisstjórnina mælist 35%.

Björt framtíð er eini flokkurinn sem mælist með meira en það 5% fylgi sem þarf til þess að fá fulltrúa á þing. Flokkurinn mælist nú með 8,1% og hefur fylgið vaxið talsvert undanfarna mánuði. Önnur framboð fá minna en 5% sem er óbreytt staða frá fyrri mánuðum. Dögun mælist með 3,8%, Hægri grænir með 3,3% og Samstaða með 1,9%.

Fengju samanlagt 45,8% fylgi

Ef miðað er við þjóðarpúls Capacent Gallup nú fengju Samfylkingin, VG og Framsóknarflokkurinn þannig samanlagt 45,8% fylgi ef vilji væri fyrir því að mynda slíka ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins. Slík ríkisstjórn gæti þó hugsanlega fengið meirihluta á þingi ef nógu mörg atkvæði dyttu dauð niður vegna þess að minni framboð næðu ekki 5% lágmarkinu og því enga þingmenn.

Hins vegar gæti slík ríkisstjórn haft mjög nauman meirihluta og verið þannig bæði mjög brothætt samstarf í ljósi þess sem og fjölda flokka svo ekki sé minnst á mögulegan málefnaágreining. Sú ríkisstjórn sem starfað hefur á þessu kjörtímabili hefur þannig einungis haft innanborðs tvo af áðurnefndum flokkum en engu að síður þótt brothætt. Hugsanlega gæti þó þurft við þessar aðstæður að bæta við fjórða flokknum verði niðurstöður kosninganna í vor á svipuðum nótum og þjóðarpúlsinn.

Nái fleiri minni framboð en Björt framtíð fulltrúum á þing, verði sú raunin, gæti möguleikinn á að mynda ríkisstjórn án þátttöku Sjálfstæðisflokksins síðan minnkað enn frekar þar sem þeir eru líklegri til þess að taka fylgi frá vinstriflokkunum miðað við áherslur sínar en sjálfstæðismönnum. En hvað sem því annars líður eru nú tæpir fimm mánuðir fram að næstu þingkosningum og ljóst að ýmislegt getur gerst á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert