Hvorki of langt til hægri né vinstri

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef það á að halda einhverju slíku fram þá verða menn að benda á einhver mál því til stuðnings og ég held að það sé ekki hægt að benda á neitt einasta mál því til stuðnings að Framsóknarflokkurinn hafi færst til hægri. Það sem við höfum hins vegar verið að gera undanfarin ár í það minnsta, og flokkurinn er að mínu mati er byggður á, er að reyna að meta hvert mál út frá rökum í stað þess að reyna troða raunveruleikanum inn í einhverja fyrirframgerða hugmyndafræði annaðhvort til hægri eða vinstri.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is en haft er eftir Höskuldi Þórhallssyni, þingmanni flokksins, á fréttavef Vikudags í dag að hann telji fylgi Framsóknarflokksins ekki viðunandi og að skýringuna sé meðal annars að finna í því að flokkurinn hafi verið of nálægt Sjálfstæðisflokknum í málum sem hafi verið mjög til umræðu að undanförnu og að hann ætti fremur að líta til vinstri en hægri.

„Þannig höfum við tekið á öllum málum sem verið hafa til umræðu í samfélaginu undanfarin ár hvort sem hafa verið skuldamál heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, atvinnumál eða hvað annað. Við höfum lagt áherslu á að taka á málunum í gegnum almenna rökræðu og þannig reynt að komast að skynsamlegum niðurstöðum í stað þess að laga þau að einhverri hugmyndafræði,“ segir Sigmundur og bætir því við að ummæli um það að Framsóknarflokkurinn sé annaðhvort of mikið til hægri eða of mikið til vinstri heyrist reglulega og þá ekki síst í aðdraganda kosninga og sýnist þá gjarnan sitt hverjum.

Hvað ummæli Höskuldar varðar segist hann aðspurður ekki hafa heyrt þetta sjónarmið frá honum áður. Hann hafi ekki vitað annað en að góður pólitískur samhljómur hafi verið á milli þeirra til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert