72% finna fyrir streitu í starfi

Könnunin náði til hjúkrunarfræðinga sem starfa sem deildarstjórar á Landspítala.
Könnunin náði til hjúkrunarfræðinga sem starfa sem deildarstjórar á Landspítala.

72% hjúkrunarfræðinga sem eru deildarstjórar og starfa á Landspítala finna fyrir streitu í starfi. Þetta kemur fram í rannsókn sem Birna G. Flygenring lektor og Ingibjörg Fjölnisdóttir hjúkrunardeildarstjóri gerðu á starfsánægju og streitu.

Könnunin var gerð í vor og náði til hjúkrunardeildarstjóra á Landspítalanum. Um 60 deildarstjórar svöruðu og var svarhlutfall um 76%.

Birna sagði að ástæða þess að þær hefðu haft áhuga á að kanna þetta væri sú að það hefðu orðið talsverðar breytingar á starfsumhverfi deildarstjóra. Sviðum spítalans hefði verið breytt. Deildarstjórar hefðu fengið nýjan yfirmann og starfssviði framkvæmdastjóra hjúkrunar hefði verið breytt. Eins hefðu deildarstjórar fengið nýja starfslýsingu.

Birna sagði að starfsánægja hjúkrunarfræðinga væri nátengd vinnutengdri streitu. Þeir sem finndu fyrir streitu væru óánægðari í starfi og líklegri til að hætta í störfum. Hún sagði að vinnuálag og streita væri nokkuð algeng upplifun hjúkrunarfræðinga.

Niðurstöður könnunarinnar eru þær að 83% deildarstjóra segja að vinnuálag sé ójafnt og verkefni hlaðist upp. 94% sögðu að það væri alltaf mikið að gera. 82% sögðu að vinnan veitti þeim gleði.

98% deildarstjóranna sögðust vera ánægðir í starfi. 72% sögðust finna fremur oft eða oft fyrir streitu í starfi. Birna sagði þetta áhyggjuefni. 60% fundu fyrir líkamlegum einkennum í stoðkerfi sem hægt er að tengja við streitu, þ.e. bakverkjum, liðverkjum og bólguverkjum í vöðvum.

62% sögðust sofa vel, 20% sögðust oft vera andvaka og 51% sögðust vakna oft þreytt.

Það sem helst veldur streitu hjá hjúkrunardeildarstjórum eru álagstengd verkefni, vandamál við mönnun, tímaskortur, samskiptavandamál og hagræðingarkröfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert