Gæti veikt vald ríkisstjórnarinnar

Nokkur gagnrýni kom fram á tillögur stjórnlagaráðs á fundi í Háskóla Íslands í dag. Á fundinum fóru fræðimenn innan háskólasamfélagsins yfir áhrif ákvæða stjórnarskrárfrumvarpsins á starfshætti ríkisstjórna, stjórnarmyndanir og hlutverk forseta Íslands.

Meðal þeirra sem héldu erindi á fundinum var Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmáafræði við Háskóla Íslands. Hann ræddi um áhrif ákvæða frumvarpsins á forsendur þingræðis,  möguleika á veikingu stjórnmálaflokka, fjölgun flokka og áhrifin á stjórnarmyndanir. 

Auknir möguleikar smáflokka

Hann sagðist ekki betur sjá en að með frumvarpinu væri gerð atlaga að þeim forsendum sem þingræðisfyrirkomulag byggðist á. Breytingar á kosningarkerfi og afnám þröskulda geti aukið möguleika á því að smáflokkar komist á þing og fjölgað þeim. Það kunni mörgum  að þykja sanngjarnt en hinsvegar geti það torveldað ríkisstjórnarmyndun mjög.

Einnig sagði Gunnar Helgi að ákvæði frumvarpsins veiktu getu ríkisstjórna til að hrinda stefnumálum í framkvæmd. Í því sambandi nefndi hann að forseti haldi synjunarvaldi sínu og 10% þjóðar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem Alþingi hefur þegar samþykkt.

Margvíslegar afleiðingar

„Afleiðingarnar geta orðið að ríkisstjórnir verði varfærnar við að leggja í óvinsælar og umdeildar ákvarðanir, kjósendur verði spurðir álits á málum sem þeir hafi takmarkaða þekkingu á og kjörsókn muni minnka. Áhrifin á ábyrgð ríkisstjórnar verða þau að hún mun ekki geta axlað ábyrgð á opinberri stefnumótun og ábyrgðin því minni eftir því sem þjóðaratkvæðagreiðslur verða oftar notaðar,“ sagði Gunnar á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert