Fyrsta málið eftir jólaleyfi

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsætisráðherra vill að frumvarpið að nýrri stjórnarskrá verði fyrsta málið sem tekið verði á dagskrá Alþingis að loknu jólaleyfi. Reyna eigi að ná samstöðu um málið sé það mögulegt en ekki á kostnað stórra mála eða atriða í frumvarpinu sem brýnt sé að ná fram.

Þetta er haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur á fréttavef Ríkisútvarpsins í dag. Þar segir hún ennfremur að ekki sé ætlunin að ná aðeins utan um lægsta samnefnarann í málinu. Þá leggur hún áherslu á að stjórnarskrármálið hafi verið rætt nær allt kjörtímabilið og að ítarlega hafi verið farið yfir stóru málin eins og varðandi auðlindaákvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur. Tímabært sé að ljúka málinu.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa rætt um möguleikann á því að ná samkomulagi um breytingar á stjórnarskránni varðandi atriði sem samstaða sé um fyrir þingkosningarnar í vor. Ekki sé nægur tími til stefnu til þess að afgreiða frumvarpið í heild þannig að nægjanlega vel verði að málinu staðið.

Undir þetta hefur Salvör Nordal tekið en hún er fyrrverandi formaður stjórnlagaráðs sem samdi þá tillögu að nýrri stjórnarskrá sem frumvarpið byggir á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert