Réttur fiskvinnslufólks ekki afnuminn

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Réttur fiskvinnslufólks til að fá greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts verður ekki afnuminn eins og kynnt var í fjárlagafrumvarpinu í haust.

Þetta kemur fram í frumvarpi til breytinga á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð sem lagt var fram á Alþingi í dag.

Í fjárlagafrumvarpinu var gerir ráð fyrir að greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts falli niður frá og með 1. janúar 2013.

Í greinargerð með frumvarpinu, sem lagt var fram í dag, segir að viðræður hafi staðið yfir milli fulltrúa velferðarráðherra, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem sú ákvörðun að fella lögin úr gildi þótti vega mjög að starfsöryggi fiskvinnslufólks en gera má ráð fyrir að falli greiðslurnar niður verði uppsagnir á starfsfólki innan starfsgreinarinnar tíðari. Fiskvinnslufólk yrði fyrir tekjuskerðingu og ljóst að útgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði ykjust þar sem starfsfólkið ætti rétt á greiðslum úr sjóðnum þann tíma sem það væri án atvinnu.

„Engu síður er ljóst að draga verður úr þeim útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem leiðir af framkvæmd laganna. Samkomulag hefur náðst milli aðila um hvernig unnt sé að draga úr þeim útgjöldum og byggist frumvarp þetta á efni þess. Breytingarnar lúta aðallega að fjölda þeirra daga er fyrirtækin eiga rétt á greiðslum fyrir úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að ekki verði greitt fyrir fyrstu þrjá dagana er falla undir vinnslustöðvun á fyrri hluta ársins og heldur ekki fyrir fyrstu þrjá dagana á seinni hluta ársins. Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða fyrir 15 greiðsludaga í senn og 35 greiðsludaga á ári hverju. Þá er gert ráð fyrir að greiðslan til fyrirtækjanna nemi einungis fjárhæð óskertra grunnatvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar en ekki jafnframt lífeyrissjóðsiðgjöldum og tryggingagjaldi atvinnurekanda eins og verið hefur. Með þessu er leitast við að viðhalda tilgangi laganna um að stuðla að starfsöryggi fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts jafnframt því sem leitast er við að lækka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert