„Setja með því þingið í skrúfstykki“

Illugi Gunnarsson, alþingismaður.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við höfum verið að reyna að ná fram breytingum á rammaáætluninni þannig að hún geti endurspeglað sátt á milli stjórnmálaflokkanna eins og lagt var upp með og þannig lifað lengur en bara þessa ríkisstjórn,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is spurður út í möguleg þinglok en ekkert samkomulag liggur enn fyrir um það hvenær Alþingi fari í jólaleyfi en samkvæmt dagskrá þingsins á það að gerast á miðvikudag.

Málið strandar að hans sögn á þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar um vernd og orkunýtingu landssvæða, svonefndrar rammaáætlunar, sem stjórnarflokkarnir ætli sér greinilega að koma í gegn fyrir jólaleyfi þrátt fyrir að engin efnisleg rök séu fyrir því að þess þurfi. Illugi vísar í gagnrýni Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) á tillöguna og segir mikilvægt að hlustað sé á þá gagnrýni.

„Þetta endurspeglar það hversu miklar áhyggjur stjórnarflokkarnir hafa af því að þeirra þingmenn standi ekki saman í þessu máli allt til enda. Þess vegna er allt kapp lagt á að koma þessu máli í gegnum þingið núna og láta sig engu varða afgreiðslu fjárlaga eða annað. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að það þurfi að troða þessu í gegn núna og setja með því allt þinghaldið í skrúfstykki,“ segir Illugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert