Ekki sannað að ljósmynd væri listaverk

Íslenski skálinn á EXPO 2010
Íslenski skálinn á EXPO 2010 mbl.is/Rax

Plúsarkitektar, Sagafilm, íslenska ríkið og 365 miðlar voru í dag sýknaðir af kröfu ljósmyndara um bætur vegna meintrar óheimillar birtingar á ljósmynd af Jökulsárlóni í tengslum við heimssýninguna EXPO 2010 og brota gegn 3. og 4. grein höfundarlaga.

Sannað þótti að stefnandi væri höfundur myndarinnar en hins vegar þótti ekki sannað að myndin væri listaverk í merkingu 1. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sem er skilyrði fyrir vernd samkvæmt 3. og 4. gr. laganna.

Til að verk njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 verður það samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna að fela í sér andlega sköpun sem sé ný og sjálfstæð a.m.k. að formi til.

Viðurkennt er að almennt sé ekki hægt að setja ákveðin skilyrði um gæði í þessu sambandi heldur verði að líta til þess sjálfstæðis og frumleika sem í verkinu felist.

Ljósmyndir sem hafa listrænt gildi njóta verndar samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972 og 3. og 4. gr. laganna, sbr. orðalag ákvæðisins og athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laganna en þar er áréttað að aðeins listrænar ljósmyndir njóti verndar samkvæmt ákvæðinu en um vernd annarra ljósmynda fari samkvæmt 49. gr. laganna.

Ekki dómarans að meta hvort ljósmynd sé listaverk eður ei

Segir í niðurstöðu dómsins að ljósmyndarinn hafi hvorki aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna eða með öðrum hætti leitast við að sanna að umrædd ljósmynd teljist listaverk í skilningi laganna. Á honum hvíli að afla þeirra sönnunargagna sem hann vill styðja málsástæður sínar og málatilbúnað að öðru leyti við.

Framlögð ljósmynd af Jökulsárlóni nægir ekki, gegn andmælum þeirra sem hann krafði um greiðslu fyrir birtingu myndarinnar, til sönnunar á því að myndin uppfylli skilyrði laganna um höfundarétt. Tekur dómari það fram að það verði ekki á hann lagt að leggja mat á hvort myndin telst listaverk eður ei. Því fellst dómarinn á það með þeim sem ljósmyndarinn höfðaði málið gegn að ekki hafi verið færðar sönnur á að myndin njóti verndar höfundarlaga. Því verði að sýkna Plúsarkitekta, Sagafilm, íslenska ríkið og 365 miðla. 

Heimssýningin EXPO 2010 var haldin í borginni Shanghai í Kína 1. maí til 31. október 2010.  Þátttaka af Íslands hálfu var í höndum utanríkisráðuneytisins.

Í tilefni af þátttökunni var í desember 2008 efnt til hugmyndasamkeppni um útfærslu á innanhússkipulagi og fyrirhugaðri sýningu í íslenska sýningarskálanum. Óskað var eftir að þátttakendur legðu fram, auk upplýsinga um hæfni og reynslu, lauslega unna hugmynd að innanhússkipulagi íslenska skálans og sýningu sem þar yrði, sem studd væri texta og teikningum, ásamt lýsingu á nálgun hugmyndar við þema sýningarinnar og þema Íslands.

Ekki var gert ráð fyrir að greitt yrði sérstaklega fyrir þátttökuna eða vinningstillöguna en hins vegar myndi sá einstaklingur eða aðili sem fyrir valinu yrði, vinna með framkvæmdastjórn EXPO 2010 að nánari útfærslu tillögunnar.

Myndinni dreift með kynningarefni fyrir sýninguna

Ljósmyndarinn, Kjartan Pétur Sigurðsson og kínverskur samstarfsmaður hans sendu tillögu í samkeppnina. Í henni sést m.a. ljósmynd af Jökulsárlóni sem Kjartan Pétur kveðst hafa tekið á árinu 1988 og er myndin notuð til að sýna mögulega útfærslu á sýningarsal og sýningarskjá.

Tillagan sem  sigraði í keppninni liggur fyrir í málinu. Á forsíðu hennar koma fram nöfn Páls Hjaltasonar, Plúsarkitektum og Aðalbjargar Hafliðadóttur, Saga Events. Í tillögunni eru upplýsingar um fyrirtæki og einstaklinga sem komið geti að nánari útfærslu tillögunnar (teymið) en Páll Hjaltason er sérstaklega tilgreindur sem „sýningarstjórn“.

Í desember 2009 taldi Kjartan Pétur sig verða þess áskynja að framangreind ljósmynd af Jökulsárlóni hefði verið notuð í vinningstillögunni með þeim hætti að hún hefði verið sýnd sem hluti af hugmynd um hvernig varpa mætti mynd á veggi sýningarskálans.

Myndinni hefði verið breytt þannig að hún hafi verið sýnd sem spegilmynd af frummyndinni auk þess sem hluti frummyndarinnar hefði verið felldur út.

Kynningarefni um íslensku sýninguna mun hafa verið dreift í desember 2009 og var umrædd ljósmynd í kynningarefninu. Til að mynda á vefnum en því var einnig dreift á minniskubbum á blaðamannaviðburðum og sent fjölmiðlum á geisladiskum. Þá var myndin notuð í glærukynningum og dreift þannig til yfirstjórnar EXPO 2010 auk þess sem myndin var notuð í kynningarbæklingi, sem prentaður var sérstaklega fyrir þá sem vildu nýta sér viðskiptaþjónustu, sem boðið var upp á í tengslum við íslenska sýningarskálann.

Ljósmyndarinn gerði með tölvubréfi 9. desember 2009, til framkvæmdastjóra íslensku sýningarinnar, athugasemd við notkun ljósmyndarinnar á vefsíðunni www.expo2010.is.  Jafnframt gerði hann athugasemdir við Pál Hjaltason með tölvubréfi 21. desember.

Var honum tjáð í framhaldi af orðsendingunum, af framkvæmdastjóra sýningarinnar, að hætt yrði að framleiða og senda út kynningarefni um sýninguna, er hefði að geyma umrædda ljósmynd, en ómögulegt væri að stöðva með öllu þá dreifingu sem fram hefði farið og eftirfarandi notkun enda hefðu kynningargögnin farið víða.

Hinn 21. desember 2009 birtist í Fréttablaðinu, sem er gefið út af 365 miðlum ehf., frétt um heimssýninguna. Með fréttinni birtist litmynd úr framangreindu kynningarefni sem sýnir hvernig myndinni af Jökulsárlóni er varpað á veggi íslenska sýningarskálans.

Ljósmyndarinn, sem er búsettur í Kína, heimsótti heimssýninguna. Taldi hann sig þá verða þess varan að ýmsar af þeim hugmyndum, er hann hefði komið á framfæri í áðurgreindri keppnistillögu, væru notaðar og útfærðar á sýningunni, án þess að leitað hefði verið eftir heimild hans til slíks.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert