Sjór í Breiðafirði var um frostmark

Eins og sjá má á þessu korti er var sjór …
Eins og sjá má á þessu korti er var sjór afar kaldur í Breiðarfirði.

Þann 11. desember var yfirborðshiti sjávar við innanverðan Breiðafjörð um eða undir frostmarki. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á blogg-síðu sinni.

Á vef Veðurstofunnar er hægt að nálgast daglega sjávarhitakort (MyOcean)og spár.  Þau eru ekki byggð á mælingum, heldur byggð á fjarkönnun þar sem teknar eru hitamyndir af yfirborði jarðar. Einar segir að þessi kort séu ágæt, en hinir fínni drættir máist þó út. 

Einar segir um kortið frá 11. desember: „Í norðvestur jaðri þess er ísjaðar og frostkaldur yfirborðssjór, litaður blár, sunnan við jaðarinn.  Tunga af  hlýsjó með yfirborðshita á milli 6-7°C er greinileg djúpt úti af Bjargtöngum.   En við innanverðan Breiðafjörðinn má sjá að yfirborðshiti sjávar er með þessari aðferð metinn um eða undir frostmarki.  Skilin liggja við Stykkishólm eða þar innan við í Hvammsfirði.“

Einar segir að það sem hafi valdið þessari kælingu séu þrálátar norðanáttir og kólnun sjávar hennar vegna. „Hlýrri sjórinn á utanverðum Breiðafirði á einhverra hluta vegna ekki greiðan aðgang inn eftir öllum firðinum, í það minnst ekki í yfirborðslögum.  Með sjávarföllunum virðist kaldur sjórinn þannig sullast fram og til baka inni á Breiðafirði og hægt og bítandi tapar hann varma sínum við snertingu við kalt loftið.  Það fór strax að bera á yfirborðshita um frostmark við innanverðan Breiðafjörð í kjölfar norðankastsins sem gerði 2. nóvember.  Lengst af var sjávarkuldinn einangraður við innanverðan Breiðafjörð og Hvammsfjörð, en á föstudag og laugardag urðu greinilegar breytingar.  Svo virðist sem kaldi sjórinn hafi náð að breiðast lengra til vesturs út með norðanverðu Snæfellsnesi.  Kort MyOcean frá því á sunnudag sýnir þá breytingu nokkuð vel.“

Einar segir að síldardauðinn hafi samkvæmt þessu orðið nánast í einni sviphendingu á laugardag og sunnudag. 

Þorsteinn Sigurðsson og hans fólk á Hafró fer í leiðangur í dag til mælinga á hita, seltu, súrefni og  fleiri þáttum.  Þá skýrist væntanlega enn frekar gátan mikla um síldardauðann á vetrarstöðvum íslensku sumargotssíldarinnar á Breiðafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert