Gagnrýndu eftirlitsgjald á smokka

Guðlaugur Þór Þórðarson og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Unnur Brá Konráðsdóttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vakin var athygli á því í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag af nokkrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar að samkvæmt frumvarpi um aukið eftirlit með lækningatækjum yrði lagt sérstakt eftirlitsgjald á ýmsar vörur frá áramótum sem almenningur notaði í daglegu lífi.

Þannig benti Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á að meðal þessara hluta væru hjólastólar, smokkar og bleyjur. Sagði hann að þessu hefði verið laumað inn í þingið í gærkvöldi þegar farið var að skyggja og enginn fjölmiðlamaður í húsinu. Þá benti hann á að gjaldið myndi þýða aukinn kostnað fyrir heilbrigðisstofnanir upp á tugi milljóna.

Samflokksmaður Guðlaugs, Unnur Brá Konráðsdóttir, nefndi ennfremur að á meðal þess sem gjaldið yrði lagt á væru dömubindi og tannþráður. Þetta væru lækningatæki samkvæmt frumvarpinu og yrði því látin sæta eftirlitsgjaldinu sem væri ekki annað en skattur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, tók einnig þátt í umræðunni og sagði að það hefði verið áhersla síns flokks til þess að stuðla til að mynda frekar að því að smokkar lækkuðu í verði.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði markmið frumvarpsins að styrkja og efla eftirlit með lækningatækjum á markaði til þess að tryggja öryggi sjúklinga og annarra notenda þeirra. Sagðist hún sem formaður velferðarnefndar eðlilegt að nefndin tæki málið aftur inn til sín og færi yfir það með tilliti til þeirrar gagnrýni sem fram hefði komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert