Áhætta fylgir því að breyta lánum

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður mbl.is/Golli

Mikill kostnaður og áhætta eru því fylgjandi að Íbúðalánasjóður bjóði upp á að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð, eins og staðan er í dag. Ákvörðun um hvort sjóðurinn veiti óverðtryggð lán verður tekin þegar staða sjóðsins hefur verið treyst með ýmsum aðgerðum sem gripið verður til. Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.

Þar segir einnig að með lögum nr. 134/2011, um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum, sem tóku gildi 1. október 2011 hafi  Íbúðalánasjóði verið heimilað að bjóða upp á óverðtryggð lán. „Mikil og vönduð vinna hefur síðan farið fram af hálfu sjóðsins til að skoða möguleika á að veita óverðtryggð lán sem verði fjármögnuð með útgáfu nýs, óverðtryggðs uppgreiðanlegs skuldabréfaflokks og hefur verið stefnt að því að hefja veitingu óverðtryggðra lána fyrir lok ársins.“

Hins vegar hafi ríkisstjórnin ákveðið 27. nóvember 2012 að afla heimilda í fjárlögum næsta árs til að auka stofnfé Íbúðalánasjóðs um allt að 13 milljarða króna til að styrkja eiginfjárhlutfall hans. Á sama tíma var jafnframt ákveðið að endurskoða innheimtuferla sjóðsins, styrkja áhættustýringu og færa fullnustueignir sjóðsins í sérstakt félag í eigu ríkisins sem annaðist umsýslu þeirra.

Enn fremur var ákveðið að velferðarráðherra skipaði sérstakan starfshóps til þess að fara yfir framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk sjóðsins sem leiði til þess að rekstur sjóðsins standi undir sér. „Starfshópnum yrði falið að fylgjast með framgangi framangreindra aðgerða og væri gert að skila áfangaskýrslu fyrir lok febrúar 2013. Þá var ákveðið að ákvarðanir um veitingu óverðtryggðra lána yrðu teknar þegar staða sjóðsins hefði verið treyst með þessum aðgerðum.“

Margrét spurði einnig hvort fyrirhugað væri að þeir sem nú eru með verðtryggð lán hjá sjóðnum geti skipt yfir í óverðtryggð lán.

Í svari ráðherra segir að Íbúðalánasjóður bjóði ekki upp á skuldbreytingu á eldri lánum. Ný lán séu einungis veitt í tengslum við kaup á húsnæði, nýbyggingar og endurbætur á eldra húsnæðis.

„Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum að undanförnu í kjölfar kauphallartilkynningar þann 27. nóvember 2012 og einnig er gerð grein fyrir í skýringu 5d í ársreikningi Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2011 býr sjóðurinn við uppgreiðsluáhættu lána, ef lán eru greidd upp fyrir lokagjalddaga. Eðli málsins samkvæmt mundu skipti á verðtryggðum lánum fyrir óverðtryggð hafa sömu áhrif og uppgreiðslur lána. Það er því hugsanlega mikill kostnaður og áhætta því fylgjandi að bjóða upp á þennan valkost eins og málum er háttað í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert