Gagnrýnir kynjareglu VG

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna, sem hættir á þingi í vor eftir að hafa endað í sjöunda sæti í forvali VG í Reykjavík, gagnrýnir túlkanir á kynjareglum VG. Hann segir þær hafa komið í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram áfram í Norðausturkjördæmi.

„Í raun og veru var mér ýtt niður hér fyrir norðan og með góðu eða illu þurfti að fá kvenkyns frambjóðanda hér í annað sætið. Ég hefði þá setið í aftursætinu áfram og það vildi ég ekki. Ég hef fullan skilning á mikilvægi jafnréttis á framboðslistum og geri ekki athugasemdir við það. Í lögum flokksins segir hins vegar að það eigi að líta á heildarmyndina og hún er þannig núna að aðeins tveir karlar sitja í efstu sætum kjördæmanna sex en konur eru í öllum hinum,“ segir Björn Valur í viðtali í nýjasta tölublaði Akureyri - vikublaðs sem kemur út í dag.

„Var það sú mynd sem við ætluðum að draga upp þegar auka átti kynjajafnrétti? Staðan er þannig að tvær konur geta skipað fyrsta og annað sætið á listum en ekki tveir karlar. Er það eðlilegt þegar á heildina er litið?“ spyr Björn Valur í viðtalinu.

„Vegna þessara skrýtnu kynjareglna hefur flokkurinn ekki tök á að umbuna fólki sínu fyrir það sem vel er gert heldur eru önnur sjónarmið tekin fram yfir,“ segir Björn Valur í viðtalinu og segist setja stórt spurningarmerki við kynjareglur VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert