„Óframkvæmanleg lög“

Frumvarp til barnalaga var samþykkt í atkvæðgreiðslu á Alþingi í kvöld að lokinni annarri umræðu og gengur það nú til þriðju umræður. Formaður velferðarnefndar Alþingis segir útlit fyrir að tillögu ráðherra um að fresta gildistöku barnalaga verði hafnað sem og tillögu meirihluta nefndarinnar að fresta því til 1. apríl.

Við atkvæðagreiðsluna var breytingartillaga Birgittu Jónsdóttur, Eyglóar Harðardóttur, Guðmundar Steingrímssonar og Unnar Brár Konráðsdóttur samþykkt.

Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að lögin tækju gildi 1. júlí en samkvæmt tillögunni munu þau taka gildi 1. janúar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, segir í samtali við mbl.is að meirihluti nefndarinnar hafi lagt til að gildistöku laganna yrði frestað til 1. apríl.

„Við erum mjög fylgjandi því að lögin taki sem fyrst gildi. En áhyggjur okkar lúta að því að nú taka gildi lög sem krefjast þess að formleg sáttameðferð hafi farið fram og verið gefið út vottorð þar um. Það er ekki hægt í dag að fá slíka formlega sáttameðferð og vottorð. Þannig að það verður ekki hægt að óska eftir úrskurði eða fara í mál út af forsjá af því að þetta vantar,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Meirihluti velferðarnefndar Alþingis hafi því ekki viljað samþykkja tillögu minnihlutans í nefndinni. „Nú lítur út fyrir að það taki í gildi lög sem eru óframkvæmanleg,“ segir Sigríður og bætir við að óvissa skapist í þeim mikilvæga málaflokki sem barnalög séu.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert