Ekkert útilokað nema Litla-Hraun

Það eina sem lögreglan getur útilokað er að Matthías er …
Það eina sem lögreglan getur útilokað er að Matthías er ekki á Litla-Hraun. mbl.is/Árni Sæberg

Strokufanginn Matthías Máni Erlingsson gengur enn laus. Þrátt fyrir að á annað hundrað ábendingar hafi borist lögreglunni í tengslum við málið er enn ekki vitað hvar Matthías er niðurkominn. Lögreglan ræðir nú við fólk sem þekkir Matthías í þeirri von að það geti varpað ljósi á málið.

„Þetta er í rauninni status quo hjá okkur. Það er í rauninni ekkert nýtt eftir gærdaginn. Það sem við höfum verið að gera er að hafa uppi á mönnum sem hafa þekkt hann, sem hann hefur verið í einverju sambandi við. Reynum að ræða við þá og fá upplýsingar,segir Arnar Marteinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

„Staðan er í rauninni þannig að það er eftir litlu að fara,“ bætir Arnar við.

Aðspurður segir hann að hátt á annað hundrað ábendingar hafi borist lögreglunni frá fólki sem telur sig hafa séð Matthías en nánari skoðun hafi svo leitt annað í ljós. „Við erum búin að eltast við fjöldann af þessu. Við skoðum þetta allt,“ segir Arnar.

Vanur útivistarmaður

Eitt af því sem lögreglan hefur til athugunar er hvort Matthías hafi slasast á flóttanum. „Það er ekkert útilokað. En það sem mælir gegn því er að þetta er vanur útivistarmaður og fjallamaður,“ segir Arnar og bætir við að Matthías hafi hlotið slíka þjálfun í Austurríki.

„Það er kannski einna líklegast af öllu að hann sé einhvers staðar úti á landi.“

Arnar tekur fram að ættingjum Matthíasar líði mjög illa og hafi miklar áhyggjur af honum.

Vonast til að Matthías gefi sig fram

Spurður hvort frekari upplýsingar hafi fundist í eða við Litla-Hraun segir Arnar svo ekki vera. „Það eina sem við getum útilokað er að hann sé á Litla-Hrauni,“ segir Arnar og bætir við að meira sé ekki hægt að útiloka. Engar myndir náðust af flóttanum í fangelsinu vegna bilunar í eftirlitsmyndavélabúnaði.

Í gær var greint frá því, að konan sem Matthías var dæmdur fyrir að ráðast á hefði yfirgefið landið ásamt börnum sínum. Matthías hafði hótað konunni og börnunum lífláti skömmu fyrir flóttann.

Arnar vonaðist til að sú staðreynd myndi leiða til þess að Mattías gæfi sig fram við lögreglu.

Hafi fólk upplýsingar um málið er það beðið að hafa samband í síma 444-1000.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert