„Fara að smella lúkum á karlinn“

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl.is

„Ég er búinn að vera að bíða, það er einn búinn að vera á undan mér og ég sendi póst til þeirra þar sem ég spurði hvað væri að frétta og þeir svöruðu í gær,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem fékk þær fréttir í gær að undirbúningur væri hafinn fyrir handaágræðslu á sig.

Í tölvupóstinum sem Guðmundur fékk útskýrði yfirlæknirinn að það hefði tekið tíma að svara honum vegna þess að það væri margt sem þyrfti að athuga áður en ráðist væri í aðgerðina. „Það þarf að undirbúa aðgerðina og æfa hana og þeir þurfa að ráðfæra sig við svæfingarlækni vegna þess að búið er að skipta um lifur í mér og þeir hafa áhyggjur af því að nýrun mín gætu gefið sig í aðgerðinni,“ segir Guðmundur og bætir við að miðað við að allt gangi eftir verði hann kominn á biðlista hjá þeim eftir þrjá mánuði. „Þá flyt ég út bara, ég er einn á biðlistanum og næstur á dagskrá hjá þeim og þeir byrja þá að vinna við að smella lúkum á karlinn.“

Fyrstur í aðgerð af þessari tagi

Guðmundur Felix segir að byrjað hafi verið á ágræðslum af þessu tagi árið 1998, sama ár og hann hafi lent í slysinu, en að þá hafi framhandleggur verið græddur á mann fyrir neðan olnboga. Hann verði hins vegar sá fyrsti sem fái nýja handleggi alveg upp við axlir. „Þannig að þetta er smá tilraunastarfsemi,“ segir Guðmundur Felix.

Aðgerðir af þessu tagi taka venjulega um einn sólarhring og líklegt er að aðgerð Guðmundar muni vera eitthvað lengri þar sem um nýja aðgerð sé að ræða. „Þetta er alveg nýtt því þeir fara alveg upp á axlir. Þetta er rosastrembin og löng aðgerð, en maður bara sefur á meðan, ég verð alveg úthvíldur,“ segir Guðmundur Felix.

Guðmundur vill koma á framfæri þakklæti til allra sem hafi stutt við sig í þessu ferli. „Ég hef fengið mikinn stuðning, t.d. fjárhagslega gæti ég þetta ekki án þess,“ segir Guðmundur sem vill líka þakka allar kveðjurnar sem hann hefur fengið en undanfarinn sólarhring hafa þær streymt inn frá öllum áttum. „Kærar þakkir fyrir mig,“ segir Guðmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert