Frestur til að sækja um sértæka skuldaaðlögun að renna út

Frestur til að sækja um sértæka skuldaaðlögun rennur út um áramót og þurfa umsóknir að berast viðskiptabanka í síðasta lagi hinn 31. desember 2012. Sértæk skuldaaðlögun er ætluð þeim sem skulda meira en 100% af markaðsvirði veðsettra fasteigna og bifreiða.

Skuldaaðlögunin nær til allra skulda einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði, bönkum, sparisjóðum og lífeyrissjóðum.

Sértæk skuldaaðlögun kemur aðeins til greina ef sýnt þykir að önnur vægari úrræði nægja ekki til að rétta af fjárhagsstöðuna og fyrirséð er að viðkomandi geti ekki staðið í skilum af lánum sínum til langframa. Sækja skal um úrræðið hjá þeim viðskiptabanka eða sparisjóði sem er aðalviðskiptabanki lántaka og er þá átt við þann banka þar sem launavelta lántaka er.

Á vef Landsbankans segir að sértæk skuldaaðlögun sé ætluð einstaklingum í miklum greiðsluerfiðleikum, með skuldir umfram eignir en geta samkvæmt greiðsluerfiðleikamati greitt af lánum sem nema allt að 100% af verðmæti eigna. Sé greiðslugeta ekki næg er heimilt að greiða að lágmarki 70% af markaðsvirði fasteignar og 100% af markaðsvirði bifreiðar á samningstímanum.

Skuldir sem nema frá 70-100% veðhlutfalli eru þá settar í biðlán til þriggja ára án vaxta og verðbóta. Afborganir af biðláni hefjast aftur að samningstíma liðnum.

Skuldir sem eru umfram 100% af virði íbúðarhúsnæðis og utan greiðslugetu falla niður í lok samningstíma standi einstaklingur við samkomulagið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert