Nóttin var eins og helgarnótt

Nokkuð var um ölvunarakstur og innbrot í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Í tilkynningu frá lögreglu segir að nóttin hafi verið eins og helgarnótt.

Bifreið var stöðvuð um klukkan hálfsjö á Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Ökumaðurinn var handtekinn, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Hann var einnig án ökuréttinda, hafði verið sviptur þeim. Hann var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.  

Um sjöleytið var tilkynnt innbrot í íbúðarhús við Árakur í Garðabæ. Þar hafði gluggi verið spenntur upp og farið inn um hann. Ekki lá fyrir hverju var stolið. Um svipað leyti var tilkynnt innbrot í hús við Hegranes í Garðabæ. Þar hafði svalahurð verið spennt upp og farið inn um hana. Ekki er vitað hvort eða hverju var stolið.

Skömmu eftir klukkan níu var tilkynnt um eld í íbúð við Bergholt í Mosfellsbæ. Eldurinn virtist hafa verið í potti og háfi. Er lögregla kom á vettvang voru húsráðendur búnir að slökkva eldinn, en fengu aðstoð slökkviliðs við að reykræsta.

Um klukkan hálfeitt var tilkynnt að bifreið hefði ekið á ljósastaur á mótum Lækjargötu og Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. Engin meiðsli urðu á fólki, en bifreiðin skemmdist mikið.

Á fimmta tímanum í nótt var bifreið stöðvuð á Bústaðavegi við Skógarhlíð. Ökumaðurinn var handtekinn, grunaður um ölvun við akstur, en var látinn laus að lokinni sýna- og upplýsingatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert