Óveðursspáin að ganga eftir

Það er snjóþungt í Bolungarvík.
Það er snjóþungt í Bolungarvík. mbl.is/Kristján Jónsson

Óveðursspáin á landinu virðist vera að ganga eftir í öllum aðalatriðum og nær veður um norðvestanvert landið hámarki um miðjan daginn í dag, samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi hjá Vegagerðinni. Áfram verður hríðarveður og skafrenningur með litlu skyggni í allan dag. 

Austan til á Norðurlandi verður vindur hægari, 13-18 m/s, og hríð á fjallvegum ofan 200-300 metra en krapi á láglendi. Skörp skil vinds og hita verða lengst af við Eyjafjörð, en norðaustan til kólnar og hvessir  með kvöldinu. Snjómugga verður áfram á fjallvegum suðvestanlands en krapi á láglendi. Hvessir með krapa og hríð í Borgarfirði og með éljum upp úr hádegi suðvestanlands. Vindhviður áætlaðar 30-40 m/s á Kjalarnesi frá því um miðjan dag.

Ferðalangar hafi varann á

Veðurstofa Íslands varar við roki eða ofsaveðri, 25-33 m/s frá Faxaflóa til Tröllaskaga í dag. Á Vestfjörðum geisar ofsaveður sem færist austur eftir Norðurlandi eftir því sem líður á daginn. Veðrið mun ekki ganga niður fyrr en aðfaranótt sunnudags. Því fylgir mikil ofankoma og fannburður í skafrenningi.

Snjóflóðasérfræðingar Veðurstofu benda ferðalöngum því á að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Hús hafa verið rýmd í fimm byggðakjörnum á Vestfjörðum. 18 tilkynningar um snjóflóð á Vestfjörðum hafa borist síðustu tvo sólarhringa.

Ýmist lokað eða ófært

Vegna snjóflóðahættu er lokað á Vestfjörðum um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal, Breiðadal og Flateyrarveg en á Norðurlandi bæði Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla. Þess utan er ekkert ferðaveður á Vestfjörðum og vegir meira eða minna lokaðir vegna ófærðar.

Það sama á við víða á Norðurlandi, en óveður er í Húnavatnssýslum og Héðinsfirði. Ófært er yfir Þverárfjall en á Vatnsskarði er hálka og skafrenningur. Siglufjarðarvegur er lokaður utan Fljóta vegna snjóflóðahættu og Ólafsfjarðarvegur sömuleiðis. Öxnadalsheiði er ófær og þar er stórhríð. Á Fljótsheiði er einnig stórhríð og ófært á Hólasandi sem og austur á Hálsum og Hófaskarði. Ekki er vitað um færð á Mývatnsöræfum, en þar er slæmt veður og engin þjónusta í dag.

Óveður er víða á Snæfellsnesi. Fróðárheiði er ófær og þar er stórhríð. Á Holtavörðuheiði er hálka og óveður en snjóþekja og óveður á Bröttubrekku og í Dölum. Svínadalurinn er ófær.

Þungfært á Suðurlandi og hálka á Austurlandi

Á Suðurlandi er víða krapi eða nokkur hálka. Það er ofankoma á Hellisheiði og í Þrengslum og snjóþekja eða krap. Eins er krapi á Reykjanesbraut og flestum vegum á Suðurnesjum. Þungfært er á milli Hafna og Grindavíkur og eins á Suðurstrandarvegi en þarna er verið að moka.

Þæfingsfærð er á Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfum en varað er við flughálku á Jökuldal og að Egilsstöðum. Annars er víða hálka á Austurlandi en vegir eru auðir á Suðausturlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert