Olíu stolið af björgunarsveitarbílum

Björgunarsveitir að störfum
Björgunarsveitir að störfum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Þetta er auðvitað agalegt að tekin sé olía af björgunartækjum þar sem er mínútuspursmál um að komast hratt af stað þegar neyðin er stærst,“ segir Borgþór Hjörvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Ársæls. Milli 300-400 lítrum af olíu var stolið af bílum sveitarinnar í nótt.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem stolið sé frá björgunarsveitum. Hún segir einkar slæmt að átt sé við búnað sveitanna með þessum hætti.  „Ef það er rautt útkall og mannslíf í húfi þá skiptir máli að vera fljótur af stað.“

Stóðu tilbúnir að fara vestur

Bílarnir stóðu á bak við Gróubúð á Grandagarði 1 þar sem Ársæll hefur starfsstöðvar. Vakt var í húsinu vegna flugelda sem þar eru og voru bílar sem stóðu fyrir framan það látnir vera, en olíu dælt af bílum sem stóðu í myrkri aftan við húsið. Bílarnir voru ekki allir merktir björgunarsveitinni því sumir voru lánsbílar, en mest var af olíu á vörubíl sem notaður er til að flytja snjóbíl sveitarinnar.

„Hann var tæmdur alveg niður þannig að það drapst bara strax þegar átti að starta honum. Hann var fulltankaður af því að spáð var svo vondu veðri fyrir vestan um helgina þannig að við vorum með öll tæki og tól sveitarinnar tilbúin til að fara vestur ef þess þyrfti.“

Vanir menn á ferð

Olíuþjófnaðurinn hefur verið kærður til lögreglu sem rannsakaði m.a. fótspor á vettvangi í dag. „Þetta voru greinilega menn sem kunna til verka því þeir hafa notað einhver tæki eða tól við þetta, við sáum enga ælupolla þarna við hliðina á og það var tekið af mörgum bílum.“

Vakt verður í Gróubúð í nótt vegna flugeldanna og heldur sala þeirra áfram á morgun milli klukkan 10 og 16. Borgþór segir að vel gangi og vonast eftir góðri sölu á morgun. „Við vonum bara að almenningur taki vel á móti okkur og reyni að styðja okkur. Maður lendir nú í ýmsu en skilur ekki hvernig menn fá sig út í að gera svona hluti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert