Víða rafmagnslaust enn

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Rafmagn er nú framleitt með varaaflsvélum fyrir Ólafsvík, Hellissand og Rif en við skoðun á Ólafsvíkurlínu, sem liggur frá Vegamótum að Ólafsvík, í gær komu í ljós meiri skemmdir en gert hafði verið ráð fyrir samkvæmt tilkynningu frá Almannavörnum.

„Unnið hefur verið að því að taka saman efni og mannskap til viðgerðar og eru viðgerðir þegar hafnar. Búist er við því að það geti tekið nokkra sólarhringa að klára viðgerðina. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að flytja aukavaraafl inn til Ólafsvíkur til að auka afhendingaröryggi og anna álagi,“ segir ennfremur.

Rafmagn komst hins vegar á sveitina í Önundarfirði síðdegis í gær. Um leið komst einnig rafmagn á mikilvæg fjarskiptamannvirki í firðinum samkvæmt tilkynningunni. Varaaflsvélar eru hins vegar enn í gangi í Bolungarvík og sjá þær Hnífsdal einnig fyrir rafmagni. Þá eru varaaflsvélar að sama skapi enn í gangi í Súðavík, Suðureyri, Flateyri, Patreksfirði og Bíldudal.

„Ef veður og snjóalög leyfa verður í dag farið að leita að bilunum á línum Orkubúsins og Landsnets. Ef ekki verður unnt að gera við línur og þannig tengjast Mjólkárvirkjun er fyrirsjáanlegt að grípa verði til frekari skammtana eftir hádegi í dag, gamlársdag. Búið er að gera við Barðastrandarlínu og eru allir á sunnanverðum Vestfjörðum með rafmagn frá díselrafstöðvum og vatnsaflsvirkjunum,“ segir í tilkynningunni.

Þá er enn rafmagnslaust í Árneshreppi en reyna á viðgerð á línum í dag ef veður og snjóalög leyfa. Bilun var á Bjarnarfjarðarlínu en gert var ráð fyrir að viðgerð kláraðist í gærkvöldi. Á Hólmavík eru allir notendur með rafmagn frá díselrafstöðvum og Þverárvirkjun segir ennfremur.

Sömuleiðis var rafmagnslaust í gærkvöldi í Ísafjarðardjúpi, fyrir vestan Reykjanes, og fór viðgerðarflokkur að reyna að koma rafmagni á þar. „Á þeim stöðum þar sem enn er keyrt á varaafli er fólk beðið að spara rafmagn eins og hægt er,“ segir í tilkynningunni.

Rafmagn komið á Saurbæ og Skarðsströnd

Fram kemur í tilkynningu frá RARIK að vinnuflokkar frá Búðardal hafi komið rafmagni á Saurbæ í Dalabyggð um klukkan sjö í morgun og þar með sé rafmagn komið á Saurbæ og Skarðsströnd en þar hafi notendur verið rafmagnslausir síðan klukkan 8:13 á laugardagsmorgunn eða í 47 klukkustundir. Tekið er fram að um bráðabirgðaviðgerð sé að ræða.

Enn sé hins vegar rafmagnslaust á Fellsströnd frá Víghólsstöðum að Klofningi en viðgerðarmenn hafi farið í birtingu í morgun til þess að koma á rafmagni þar. Þá hafi verið rafmagnstruflanir á Staðarsveitarlínu í gærkvöldi og í nótt. Notendur í Ólafsvík, Rifi og Hellissandi eru beðnir að fara sparlega með rafmagn samkvæmt tilkynningu RARIK.

„Gott væri ef þeir sem geta tekið út t.d. kælivélar eða önnur orkufrek tæki seinnipart dags og fram á kvöld gerðu það svo ekki komi til skömmtunar eða að vélar leysi út vegna álags þegar íbúar hefja matseld í kvöld,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert