Fyrsta barnið frá Hvolsvelli

Einar Viðar Viðarsson og Berglind Hákonardóttir með litlu stúlkuna sem …
Einar Viðar Viðarsson og Berglind Hákonardóttir með litlu stúlkuna sem fæddist í Hreiðrinu á Landspítala snemma í morgun. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta gekk vel og við erum ánægð með stúlkuna,“ sagði Berglind Hákonardóttir, en hún og maður hennar, Einar Viðar Viðarsson, eignuðust fyrsta barn ársins kl. 5:34 í morgun. Þau búa á Hvolsvelli.

Þetta er þriðja barn Berglindar og Einars, en þau eiga fyrir átta ára dreng og fjögurra ára stúlku. Stúlkan, sem fæddist í Hreiðrinu á Landspítala í morgun, var 14 merkur og 49,5 cm.

Barnið átti að fæðast 4. janúar og Einar og Berglind áttu því von á að það myndi fæðast á nýju ári. Þau reiknuðu hins vegar ekki með að það yrði fyrsta barn ársins.

„Nei, við vorum nú eiginlega búin að gefa það frá okkur, því að við lögðum ekki af stað að heiman fyrr en eftir miðnætti,“ sagði Berglind. Þau lögðu af stað frá Hvolsvelli í nótt til Reykjavíkur. Einar ók í bæinn á fjölskyldubílnum. Fæðingin gekk vel og barnið fæddist um kl. hálfsex í morgun.

„Fjölskyldan er í skýjunum yfir nýja barninu,“ sagði Berglind þegar mbl.is ræddi við hana í morgun. Þá voru hin börnin ekki búin að fá fréttir af því að þau hefðu eignast lítið systkini.

Berglind er 33 ára og starfar sem endurskoðandi á Hvolsvelli. Einar er 32 ára vélvirki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert