Gagnrýnir olíustefnu Steingríms

Árni Finnsson.
Árni Finnsson.

„Það sem kemur okkur á óvart er að Steingrímur J. Sigfússon skyldi taka á móti norska olíumálaráðherranum og fagna þessu,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, og gagnrýnir að formaður eina stjórnmálaflokksins sem kennir sig við umhverfisvernd á Íslandi skuli fylgjandi mengandi olíuiðnaði.

Tilefnið er að Orkustofnun gefur í dag út tvö sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Það eru annars vegar íslenskt útibú Faroe Petroleum Norge AS og Íslenskt kolvetni ehf. og hins vegar Valiant Petroleum ehf. og Kolvetni ehf. sem fá fyrstu sérleyfin. Leyfin verða undirrituð í dag. Ole Borten Moe, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, verður viðstaddur undirritun sérleyfanna en norska ríkisolíufélagið Petoro tekur þátt í báðum sérleyfunum.

„Mjög ólukkulegt“

„Það er út af fyrir sig legið fyrir lengi að þetta væri stefna Orkustofnunar að leyfa þetta. Það sem kemur okkur á óvart er að Steingrímur J. Sigfússon skyldi taka á móti norska olíumálaráðherranum og fagna þessu.

Hann hlýtur að vita að alþjóðavísindasamfélagið og Alþjóðaorkumálastofnunin sérstaklega hafa varað við því að ekki megi brenna meira en tveimur þriðju af þekktum jarðefnaeldsneytisbirgðum jarðar til að takast megi að ná fram því markmiði í loftslagsmálum, sem þar á meðal Ísland hefur skuldbundið sig til, að hlýnun af mannavöldum verði ekki meiri en 2 gráður á Celsíus að meðaltali.

Það er mjög ólukkulegt að formaður eina flokksins á Íslandi sem kenni sig við græna stefnu skuli ekki standa betur að málum. Við eigum að láta olíuna á Drekasvæðinu liggja kyrra. Olíulindir á Norðurslóðum bjarga ekki heiminum á neinn hátt. Ef eitthvað er að marka stefnu stjórnvalda um nýtingu endurnýjanlegrar orku að þá stenst þetta ekki,“ segir Árni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert