Sló farþega og hrækti ítrekað

Binda þurfti niður farþega í flugvél Icelandair á leið til New York í gærkvöldi eftir að hann gekk berserksgang. Þetta staðfestir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hann segir farþegann hafa sýnt hættulega framkomu, slegið til farþega og ítrekað hrækt á þá og flugáhöfn.

Birt var mynd á víðlesnum samfélagsmiðlum í dag þar maðurinn sést bundinn með plastböndum og límbandi. Guðjón segist ekkert geta tjáð sig um myndina en staðfestir við mbl.is að búnaður sé í öllum flugvélum Icelandair til að taka á uppákomum sem komið geta upp. Þar á meðal eru plastbönd og límband.

Maðurinn hóf ólætin þegar um tvær klukkustundir voru eftir af fluginu. Í lýsingu farþega á samfélagsmiðlinum Reddit segir að hann hafi sturtað í sig heilli flösku af sterku áfengi sem hann var með á sér og í kjölfarið tryllst.

Guðjón segist ekki geta tjáð sig um þá lýsingu en áréttar að binda þurfti manninn niður af öryggisástæðum. Hann hafi meðal annars haft uppi ógnandi talsmáta við farþega og flugáhöfn og ítrekað hrækt. Eftir að hann var bundinn hafi áhöfnin vaktað ástand mannsins reglulega það sem eftir var af fluginu en lögregla handtók hann eftir að flugvélinni var lent á JFK-flugvellinum í New York.

Þá vildi Guðjón ekki tjá sig um það af hvaða þjóðerni maðurinn er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert