Þyrlubjörgun á hafi í uppnámi

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Frá síðustu áramótum er óheimilt að fljúga þyrlum Landhelgisgæslunnar út fyrir 12 mílna landhelgi, samkvæmt heimildum mbl.is, en þá tók gildi breytt skráning á flugflota Landhelgisgæslunnar úr svokölluðum JAR-flokki [e. Joint aviation requirement] yfir í State-flokk.

Efnahagslögsagan er, eins og kunnugt er, 200 sjómílur og hlutverk Gæslunnar er meðal annars að sinna öryggis- og löggæslu úti á hafi, þar með talið fiskveiðieftirliti en einnig leitar- og björgunarþjónustu við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó ásamt aðstoð við almannavarnir og aðstoð þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss.

Til að fljúga út fyrir 12 mílna landhelgi þurfa íslensk loftför að hafa leyfi frá EASA, Flugöryggisstofnun Evrópu. Samkvæmt heimildum mbl.is brýtur flugstjóri Gæslunnar gegn reglugerð EASA fljúgi hann út fyrir 12 mílurnar. Þar með geta tryggingafélög neitað að greiða bætur ef tjón verður.

Ljóst er að verði ekki gerð breyting á skráningu íslenskra loftfara Gæslunnar er björgunarstarf á sjó innan íslenskrar efnahagslögsögu í verulegu uppnámi, enda geta mínútur skipt máli þegar neyð er á hafi úti.

Haft var samband við Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, sem kvaðst ekki þekkja nægilega vel til málsins til að geta tjáð sig um það við fjölmiðla í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert