Jöklar hverfa á 200 árum

Dr. Helgi Björnsson jöklafræðingur.
Dr. Helgi Björnsson jöklafræðingur. mbl.is/Eggert

Loftlagsbreytingar munu leiða til þess að jöklar munu nær alfarið hverfa á 200 árum og yfirborð sjávar mun halda áfram að hækka af þeim sökum. 

Þetta var meðal þess sem kom fram á ráðstefnu til heiðurs dr. Helga Björnssyni jöklafræðingi í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Þar komu saman margir af helstu jöklafræðingum heimsins og ræddu um hættur sem steðja að jöklum og um hegðun þeirra í ólíkum heimshornum.

„Allir þeir sem mættu hafa einhver tengsl við Ísland og þær rannsóknir sem fram hafa farið hér. Alls var um að ræða 15 erindi sem öll tengdust jöklum,“ segir Helgi.

Erum ekki að leysa nein vandamál 

Rætt var um jökla á norður- sem suðurhveli. Rætt var meðal annars um loftslagsbreytingar og hækkun í heimshöfum. „Þetta eru viðfangsefni sem allir jöklafræðingar heimsins eru að glíma við. Við vorum kannski ekki að leysa nein vandamál en þetta var afskaplega fróðlegt,“ segir Helgi.

„Við Íslendingarnir ræddum helst um það hvernig eldgos hefur áhrif á jökla og hvernig gjóska leggst á jökla. Það er ólíkt því sem aðrir jöklafræðingar geta rannsakað annars staðar í heiminum,“ segir Helgi. 

Jöklar munu hverfa á 200 árum

Hann segir að jöklar muni að mestu leyti hverfa á næstu 200 árum á Íslandi og í Skandinavíu. „Það er ljóst að svo mun verða, en eitthvað munu þeir verða lengur á Svalbarða, Suðurskautslandinu og á Grænlandi. En alls staðar í Evrópu, á Íslandi og Alaska, þar munu þeir hverfa,“ segir Helgi.

„Aðalatriðið hér er sá áhugi sem ríkir um allan heim á þeim málum sem við erum að rannsaka hér. Við erum því gjaldgeng í alþjóða umræðu um jöklamál,“ segir Helgi.  

Meðal annars var rætt um áhrif eldgosa á jökla.
Meðal annars var rætt um áhrif eldgosa á jökla. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert