„Við viljum stækka kökuna“

Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun.
Bjarni Benediktsson á fundinum í morgun.

Pólitísku deilumálin fyrir kosningarnar í vor eru um margt kunnugleg og umræðan af sama toga og verið hefur. „Við viljum stækka kökuna en vinstrimenn segja lausnina felast í nýjum aðferðum við að skera hana,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, á fundi í morgun.

Bjarni ræddi við fundargesti Valhallar um stöðu stjórnmála og verkefnin í aðdraganda kosninga. Hann benti á að 105 dagar væru þar til gengið yrði til kosninga og spurði hvenær sá tími væri liðinn að kenna ætti efnahagshruninu haustið 2008 um allt sem aflaga færi. Það væri ekki enn, ef marka mætti orð formanna stjórnarflokkanna.

Hann sagði að út úr síðustu kosningum hefði þjóðin fengið það versta úr báðum stjórnarflokkum; utanríkisstefnu Samfylkingar og atvinnustefnu Vinstri-grænna. Þá sagði hann ríkisstjórnina hafa gengið lengra í skattahækkunum en nokkurn hefði í upphafi órað fyrir. Það væri meðal annars ástæðan fyrir því að ekkert samkomulag væri við aðila vinnumarkaðarins. 

„Í stað þess að hvetja almenning og atvinnulífið áfram, og standa með heimilum og fyrirtækjum, voru auknar byrðar lagðar á alla. Þetta hafið þið fundið á eigin skinni,“ sagði Bjarni og einnig að ríkisstjórnin hefði brugðist því hlutverki sínu að sinna grunnatvinnuvegum þjóðarinnar.

Bjarni sagði að engan tíma mætti missa, hleypa yrði krafti í atvinnulífið og það strax. „Við megum ekki við því að fólkið í landinu flytji á brott með þá þekkingu og vinnukraft sem því fylgir. Við getum ekki verið án þessara mikilvægu einstaklinga.“

Hann spurði hvort ekki væri betra að opna hagkerfið, laða fram fjárfestingu og stilla sköttum í hóf, bæta kjörin í stað þess að jafna þau og líta á ríkið sem upphaf og endi alls. Það hlyti að vera betra en að skattleggja allt sem hreyfðist og hrista það sem ekki hreyfðist.

Ennfremur sagði Bjarni að það væri enginn ágreiningur um þörfina á auknum stöðugleika á Íslandi, fyrir heimilin og fyrir atvinnustarfsemi, til þess að fólk fengi trú á framtíðina, svo það gæti gert áætlanir en héldi ekki áhyggjufullt að sér höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert