Grænir og gulir miðar eiga að draga úr óhöppum

Hér má sjá sýnishorn af nýja miðanum vinstra megin og …
Hér má sjá sýnishorn af nýja miðanum vinstra megin og þeim gamla sem einnig verður notaður áfram hægra megin. Af vef Umferðarstofu

Ný tegund af endurskoðunarmiðum á ökutæki hefur verið tekin í notkun á skoðunarstöðvum en Umferðarstofa hefur hannað miðana þannig að auðveldara er fyrir lögreglu að hafa eftirlit með ökutækjum sem færa þarf til endurskoðunar. Munurinn á nýju miðunum og þeim gömlu er sá að nú eru þeir tvílitir, gulir og grænir. Fram að þessu hafa þeir eingöngu verið grænir en ætlunin er að nota þessa tvílitu miða á oddatöluári líkt og 2013-2015-2017 o.s.frv.

Hefðbundni græni endurskoðunarmiðinn verður áfram notaður á ári sem endar á sléttri tölu líkt og 2012-2014-2016 o.s.frv. Með þessari aðgreiningu verður betur ljóst hvort um sé að ræða endurskoðunarmiða sem gildir á tilteknu ári eða hvort hann sé frá árinu á undan og því verður auðveldara að greina þau ökutæki frá í umferðinni sem eru komin langt umfram tilskilda heimild varðandi endurskoðun.

Þetta kemur fram í frétt á vef Umferðarstofu.

Mörg óhöpp og slys má rekja til lélegs ástands ökutækja og vonir eru bundnar við að með þessu reynist unnt að bæta umferðaröryggi enn meira með því að tryggja það að í umferð séu aðeins ökutæki sem staðist hafa skoðanir eða hafa fengið frest til úrbóta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert