Vill rannsóknarboranir vegna Þríhnúka

Áformað er að gera jarðgöng sem myndu opnast inn í …
Áformað er að gera jarðgöng sem myndu opnast inn í miðja hvelfingu Þríhnúkagígs. Þar með myndi gígurinn opnast fyrir ferðamönnum. mbl.is/Golli

Skipulagsstofnun vill að gerðar verði rannsóknarboranir norðvestan við Þríhnúka áður en afstaða verður tekin til þess hvort fallist verður á uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Það skorti upplýsingar um rennsli grunnvatns, en Þríhnúkar eru inni á vatnsverndarsvæði.

Áform um að byggja aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum til að skoða Þríhnúkagíg hafa beint sjónum manna að áhrifum þessarar uppbyggingar á vatnsvernd á Heiðmarkarsvæðinu. Skipulagsstofnun segir ljóst að ný starfsemi í og við vatnsverndarsvæðið auki álag á það. Erfitt geti hins vegar verið að meta áhrifin vegna óvissu um hversu margir gestir muni sækja svæðið og þar með hversu umferð muni aukast mikið. Meiri umferð auki líkur á óhöppum. Áhyggjurnar snúa m.a. að því hvaða áhrif það hafi á gæði vatns ef rúta eða aðrir stórir bílar fari út af á Bláfjallavegi og olía fari í jarðveginn.

Heildarendurskoðun á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins

Það eru ekki nema 13 ár síðan umhverfisráðherra staðfesti endanlega mörk vatnsverndarsvæðis í Heiðmörk. Tvær breytingar hafa verið gerðar á því síðan. Aflétt var vatnsvernd í jaðri svæðisins í Garðabæ til að gefa hestamönnum færi á að skipuleggja svæði undir hesthús. Einnig hefur verið gerð minniháttar breyting á svæðinu vestan Elliðavatns.

Vatnsverndarsvæðið er flokkað í fjóra flokka, brunnsvæði sem eru afgirt og strangar reglur gilda um. Síðan er grannsvæði þar sem einnig gilda strangar reglur. Þá eru fjarsvæði A sem liggja austanmegin við grannsvæðin, þ.e. á Bláfjallasvæðinu og svæðum norðan við Kistufell, en þar eru upptökusvæðin og vatn rennur af þeim að grannsvæðunum. Þríhnúkar eru á þessu svæði. Síðan eru fjarsvæði B sem liggja vestan megin við Heiðmörk, m.a. næst byggð í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði, en um það svæði gilda ekki eins strangar reglur og svæði A því þessi svæði liggja neðar í landinu.

Yfirumsjón með vatnsverndarsvæðunum er í höndum sérstakrar framkvæmdastjórnar sem skipuð er framkvæmdastjórum heilbrigðiseftirlita á höfuðborgarsvæðinu. Framkvæmdastjórnin óskaði eftir því við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að fram færi heildarendurskoðun á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins. Þessi vinna hófst á síðasta ári og henni er ætlað að ljúka í október á þessu ári.

Ekki reiknað með nýjum rannsóknum

Hrafnkell Á. Proppé, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, segir að búið sé að skipa stýrihópi til að vinna að þessari endurskoðun. Verkfræðistofan Vatnaskil hafi verið ráðin til að vinna að málinu. Lýsing á verkefninu sé núna til kynningar hjá sveitarstjórnum og heilbrigðisnefndum. Hún verði síðan send til umsagnar um næstu mánaðamót.

Hrafnkell segir að búið sé að vinna miklar rannsóknir á vatnsverndarsvæðinu og fyrir liggi rennslislíkan um hvernig vatn streymi að brunnsvæðunum. „Eins og staðan er núna reiknum við ekki með að fara í nýjar rannsóknir, ekki nema að upplýsingar komi fram um að þörf sé á þeim. Vinnan byggist á áralöngum rannsóknum. Rennslislíkanið hefur verið í þróun eftir því sem fleiri rannsóknir hafa bæst við og vitneskja manna um svæðið hefur aukist.“

Í áliti sem Skipulagsstofnun birti í lok desember sl. um aðgengi að Þríhnúkagíg, en þar eru uppi áform um að byggja upp aðstöðu fyrir ferðamenn, segir að rannsaka þurfi betur rennslisstefnu og hraða strauma á svæði sem liggur norðvestan Þríhnúka. Þar vanti borholur til að gera raunmælingar á þessum þáttum.

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitunnar, tekur undir þetta og segir að það vanti upp á að þekkingargrunnurinn á Bláfjallasvæðinu sé nægilega traustur. Hún telur því ekkert vit í því að leyfa uppbyggingu við Þríhnúka fyrr en menn viti meira um vatnsbúskap á svæðinu.

Reikna með að umferð aukist um 642%

Í frummatsskýrslu um Þríhnúkagíg er að finna umferðarspá vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að umferðin aukist mest yfir sumarið eða um 122% í júlí fyrst eftir að starfsemin fer af stað. Spá fyrir árið 2023 gerir síðan ráð fyrir umtalsverðri aukningu í umferð, allt frá 100% yfir veturinn og upp í 642% í júlí. Þá gerir spáin ráð fyrir að sumarumferð sé orðin allt að 1.200 bílar á dag, mest rútur. Þetta þýðir að umferð upp að Þríhnúkum yrði miklu meiri en t.d. upp í skíðasvæðið í Bláfjöllum.

Verkfræðistofan Vatnaskil var fengin til að meta mengunarhættu af hugsanlegu mengunarslysi á svæðinu. Forsendur spárinnar miðast við mjög óhagstæðar aðstæður. Niðurstaðan er að styrkur olíu við brunnsvæði í Kaldárbotnum geti mögulega orðið meira en 0,0032 mg/l við brunnsvæðið. Sá styrkur er undir viðmiðunarmörkum drykkjarvatns.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er: „Niðurstöður áhættugreiningar vegna mögulegra mengunaróhappa benda til þess að óveruleg hætta sé á mengun grunnvatns vegna slíkra óhappa er tengjast fyrirhugðum framkvæmdum og rekstri Þríhnúka.“

Orkuveita Reykjavíkur bendir á í umsögn sinni að Bláfjallavegur uppfylli ekki hönnunarstaðla og telur að núverandi vegur hafi í för með sér álag á vatnsverndarsvæðin. Vegagerðin bendir á að endurbætur á veginum séu háðar fjárveitingum. Bálfjallavegur sé ekki eini vegurinn á þjóðvegakerfinu sem ekki uppfylli staðla.

Leyfi ekki veitt fyrr en heildarendurskoðun er lokið

Það er í höndum Kópavogsbæjar að veita framkvæmdaleyfi til þeirra sem standa að Þríhnúkaverkefninu. Bæjaryfirvöld hafa lýst því yfir að afstaða til leyfisins verði ekki tekin fyrr en búið er að ljúka heildarendurskoðun á vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins. Skipulagsstofnun tekur undir þetta og telur að niðurstöður matsskýrslunnar „eigi að nýta við gerð skipulagsáætlana á svæðinu, sem eru síðan grunnur leyfisveitinga til framkvæmda innan vatnsverndarsvæðisins.“

Vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins er mjög stórt. Það er þetta stórt m.a. vegna þess að menn hafa viljað láta vatnsgæðin njóta vafans. Sú vinna sem nú stendur yfir á vatnsverndarsvæðum höfuðborgarsvæðisins gæti í sjálfu sér leitt í ljós að svæðið sé óþarflega stórt og óhætt sé að takmarka það eitthvað. Það verður hins vegar ekki gert nema á grundvelli rannsókna sem færi mönnum heim sanninn um að svæði sem nú njóta verndar þurfi ekki að njóta verndar.

Í sumar var ferðamönnum boðið upp á skipulagðar ferðir til …
Í sumar var ferðamönnum boðið upp á skipulagðar ferðir til að skoða Þríhnúkahelli. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert