Hægt á viðræðunum við ESB

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, yfirgefur ríkisstjórnarfundinn í morgun.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, yfirgefur ríkisstjórnarfundinn í morgun. mbl.is/Styrmir Kári

Samþykkt var á aukafundi ríkisstjórnarinnar sem fram fór í morgun hægja á viðræðunum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í vor. Er þetta í samræmi við vangaveltur sem Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, var með í byrjun desember.

Í minnisblaði sem var lagt fram og samþykkt á ríkisstjórnarfundinum í morgun kemur fram að nú sé ljóst að viðræðurnar leiða ekki til samnings á yfirstandandi kjörtímabili.

Af þeim 33 málaflokkum sem samið er um hefur Ísland afhent 29 samningsafstöður, viðræður eru hafnar um 27 og lokið um 11.

Tafir hafa orðið á að viðræður gætu hafist um mikilvæga kafla svo sem sjávarútvegsmál þar sem Evrópusambandið hefur dregið að ljúka sinni rýniskýrslu um málið mánuðum saman. Einnig hefur dregist að ljúka samningsafstöðu Íslands í landbúnaði.

Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna og forystumenn þeirra funduðu um málið í síðustu viku og niðurstaðan á ríkisstjórnarfundinum kemur í framhaldi þess, en nýárskveðja Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og formanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, til flokksmanna sinna mun hafa valdið talsverður titringi á stjórnarheimilinu.

Þar sagði Steingrímur að óumflýjanlegt væri að endurmeta stöðuna í viðræðunum við Evrópusambandið vegna breyttra forsenda. Vísaði hann þar til þess að ekki hafi tekist að ljúka þeim á kjörtímabilinu. Þá sagði hann að nota ætti næstu vikur til þess að ákveða með hvaða hætti yrði haldið á málinu næstu mánuðina og misserin.

Athygli vekur að niðurstaðan á ríkisstjórnarfundinum í morgun er í samræmi við vangaveltur sem Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, setti fram í byrjun desember síðastliðins. Þar sagði hann að honum þætti ekki ósennilegt að hægt yrði á viðræðuferlinu og það jafnvel langt til hliðar fram yfir kosningar.

Árni lagði þó áherslu á að engin ákvörðun hefði verið tekin í því sambandi. Hins vegar sagðist hann telja að það myndi nánast gerast af sjálfu sér að hægt yrði á ferlinu en eftir sem áður væri hægt að halda áfram með það sem þegar væri í gangi. Þá sagði Árni að næsta ríkisstjórn gæti síðan endurmetið stöðuna.

Viðræður við ESB settar á ís

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert