Hálka, krapi, él og snjóþekja

Þæfingsfærð er nú á Hellisheiði. Mynd úr myndasafni.
Þæfingsfærð er nú á Hellisheiði. Mynd úr myndasafni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Hálka og krapi er víða á vegum. Þæfingsfærð er á Sandskeiði og á Hellisheiði og þar er líka skafrenningur. Flughálka er á Gaulverjabæjarvegi. Snjóþekja og skafrenningur er í Þrengslum, en hálka eða snjóþekja á öðrum leiðum á Suðurlandi.

Óveður er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Samkvæmt upplýsingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar er óveður og ófært frá Grundarfirði að Hellissandi. Óveður er í Kolgrafafirði og undir Búlandshöfða. Einnig er ófært og stórhríð á Fróðárheiði. Þæfingsfærð er á Vatnaleið.

Ekki eru komnar upplýsingar um færð á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Snjóþekja og éljagangur er á Bröttubrekku, en snjóþekja eða hálka á öðrum leiðum.

Á Vestfjörðum er þæfingsfærð á Gemlufallsheiði, á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Snjóþekja er á flestum öðrum leiðum í kringum Ísafjörð. Ófært er á Hálfdáni og þæfingsfærð á Mikladal. Byrjað er að moka alla vegi.

Á Norðurlandi vestra er snjóþekja í Húnavatnsýslum, en þungfært og skafrenningur á Vatnsskarði. Flughálka er á Skagastrandarvegi og frá Sauðárkróki að Hofsósi. Byrjað er að moka alla vegi og eru upplýsingar væntanlegar fljótlega.

Á Norðausturlandi er hálka á flestum leiðum í kringum Akureyri. Snjóþekja og skafrenningur er á Víkurskarði, þæfingsfærð og skafrenningur er á Mývatnsöræfum og á Öxnadalsheiði.  Snjóþekja og snjókoma á flestum öðrum leiðum og mokstur er hafinn.

Hálka eða snjóþekja og snjókoma er mjög víða á Austurlandi en greiðfært með ströndinni frá Breiðdalsheiði að Höfn. Á Suðausturlandi er snjóþekja og éljagangur frá Höfn að Sandfelli, en hálkublettir eða hálka á öðrum leiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert