Snýst um að valda okkur tjóni

Reynir Traustason, ritstjóri DV.
Reynir Traustason, ritstjóri DV.

„Við verjumst manninum og drögum fram það sem þarf að draga fram til að sanna okkar mál,“ segir Reynir Traustason, ritstjóri DV, um Jón Þorstein Jónsson, fyrrverandi stjórnarformann Byrs, sem hefur stefnt ritstjóra og fréttastjóra DV.

Reynir segir að málið varði umfjöllun blaðsins um mörg hundruð milljóna króna gjaldeyrisviðskipti Jóns Þorsteins, sem krefur DV jafnframt um þrjár milljónir kr. í skaðabætur.

Þá fer hann fram á að ákveðin ummæli verði dæmd dauð og ómerk.

„Undanfarnar málsóknir snúast ekkert um rétt eða rangt. Þær snúast um að valda okkur tjóni, því þetta tekur tíma. Það tekur tíma að verjast í svona málum og það kostar peninga,“ segir Reynir.

Hann bætir við að DV hafi reynslu af því að „dómstólar hafa í nokkrum tilvikum, þar sem DV hefur verið sýknað, samt fellt eigin málskostnað á okkur. Ég geri ráð fyrir að menn séu svolítið með þetta í huga þegar þeir eru að stefna [DV],“ segir Reynir.

Aðspurður segir hann að málið verði þingfest nk. fimmtudag. „Svokallað Hells Angels-mál [gegn DV] og þetta mál eru þingfest sama dag,“ bendir Reynir á.

Hæstiréttur dæmdi í fyrra Jón Þorstein Jónsson ásamt Ragnari Z. Guðjónssyni í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik í svokölluðu Exeter-máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert