Lokatakmarkinu væntanlega náð í dag

Vilborg Arna Gissurardóttir
Vilborg Arna Gissurardóttir

Vilborg Arna Gissurardóttir nær að öllum líkindum langþráðu takmarki sínu í dag að vera fyrsti Íslendingurinn sem gengur einn síns liðs á suðurpólinn samtals um 1.140 kílómetra leið.

Vilborg  gekk í gær tæplega 20 km og á því eftir um 18 km á pólinn. Hún hefur því að líkindum sofið sína síðustu nótt í göngutjaldinu sem verið hefur hennar næturstaður í hálfan annan mánuð.

Vilborg gæti hæglega náð pólnum um kl. 15 að staðartíma eða kl. 18 að íslenskum tíma, samkvæmt fréttatilkynningu.

 Síðustu dagar hafa reynst Vilborgu erfiðir enda hafa veður og aðstæður allar verið óhagstæðar en þar að auki hefur Vilborg glímt við magakveisu og lítilsháttar kal á lærum.

Aðstæðurnar hafa gert það að verkum að hún hefur þurft að ganga tíu dögum lengur en fyrstu áætlanir hennar gerðu ráð fyrir.

 Áheitasöfnun Vilborgar Örnu í þágu Lífs styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans tekið kipp á síðustu dögum. Nú hafa safnast um 5 milljónir króna og munar þar mest um framlag verslunarkeðjunnar Iceland sem gaf eina milljón króna til söfnunarinnar seint á síðasta ári.

Númer söfnunarinnar er 908 15 15 og dragast þá 1.500 krónur af símreikningi.

Einnig er hægt að heita á spor hennar með frjálsum framlögum á heimasíðu Vilborgar www.lifsspor.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert