48,5% vilja ljúka viðræðum við ESB

AFP

Tæpur helmingur landsmanna vill að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið (ESB) verði lokið samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þriðjungur vill draga umsóknina til baka og fimmtán prósent vilja gera hlé á viðræðunum og ákveða framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alls sögðust 48,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku til spurningarinnar vilja að aðildarviðræðurnar yrðu kláraðar og aðildarsamningurinn borinn undir þjóðaratkvæði. Um 36,4 prósent sögðust vilja að umsókn Íslands yrði dregin til baka.

Formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokks lögðu ásamt Jóni Bjarnasyni, þingmanni Vinstri grænna, fram formlega tillögu í utanríkismálanefnd Alþingis í byrjun árs þess efnis að hlé yrði gert á aðildarviðræðunum og þær ekki hafnar nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt könnuninni vilja 15,2 prósent landsmanna fara þá leið.

Fréttablaðið kannaði hug landsmanna til aðildarumsóknarinnar síðast í byrjun desember 2011. Þá vildu 65,3 prósent ljúka viðræðunum en 34,7 prósent draga umsóknina til baka. Þá var umræða um möguleikann á að gera hlé á aðildarviðræðum og greiða atkvæði um framhaldið ekki komin á flug, sem torveldar samanburð á niðurstöðum þeirrar könnunar og könnunarinnar sem gerð var í gærkvöldi og fyrrakvöld, segir í frétt Fréttablaðsins í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert