Dularfullar blæðingar

Úr safni.
Úr safni. mbl.is/Þorkell

Ökumenn hafa tekið eftir því að farið er að blæða úr klæðingu vega um landið norðvestanvert. Lögreglan á Blönduósi kannast við málið og segist vita af því að ökumenn hafi ekið á tjöruköggla sem myndast á vegum. Vegagerðin segist ekki vita hvers vegna þetta gerist og að ekkert sé hægt að gera.

Lögreglan telur að blæðingin eigi sér upptök sunnar. Menn hafi verið að keyra á tjöruklessur í Hrútafirði og áfram suður úr.

Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri vestursvæðis hjá Vegagerðinni, segir í samtali við mbl.is að þetta sé þekkt fyrirbrigði og hið versta mál fyrir umferðina. „Við höfum ekki fundið ráð við þessu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

 „Við höfum aldrei komist að því hvers vegna þetta gerist,“ segir Magnús ennfremur. Þetta geti hins vegar gerst við ákveðnar aðstæður t.d. þegar það hlýni snögglega. Hiti og raki séu áhrifaþættir. Hann segir að þetta hafi nánast ekkert gerst í vetur og ekki heldur í fyrra.

„Þetta er svo sérkennilegt að þetta er nánast dularfullt fyrirbrigði,“ segir Magnús.

Aðspurður segist hann ekki vita hvar upptökin séu.

Þegar olíu blæðir úr slitlagi eða klæðingum hleðst hún á bíldekk smátt og smátt þar til hún getur breyst í köggla sem losna síðan af.

„Þetta gerist á þessari svokölluðu klæðingu, þ.e.a.s þessu hefðbundna bunda slitlagi sem við erum með úti á landi, þetta gerist ekki í malbiki,“ segir Magnús.

Menn verði ekki varir við þetta nema þegar þeir sjá að þetta hafi breyst í köggla sem dreifist um veginn og breytist í litlar klessur. „Þetta skemmir kannski ekkert rosalega mikið [...] En það flýtur stundum svona bik á yfirborðinu og þetta límist á dekkin og dettur svo af. Þetta slítur auðvitað slitlaginu en það er ekki eins og það komi holur,“ segir Magnús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert