Engar tölur um innflutta hamborgara

Ekki liggur fyrir hve mikið magn af innfluttum hamborgurum er …
Ekki liggur fyrir hve mikið magn af innfluttum hamborgurum er flutt hingað til lands. mbl.is/Eyþór

Ekki liggur fyrir magn innfluttra hamborgara hjá Matvælastofnun, en samkvæmt upplýsingum þaðan eru þeir oft fluttir inn í magnflutningum og misjafnt hvernig innflutningurinn er tilkynntur. Það komi fyrir að vörurnar falli undir annan innflutning á nautakjöti og séu skráðar þannig án frekari skilgreiningar.

Þorvaldur H. Þórðarson, hjá Matvælastofnun, segir grundvallaratriði að kjötið komi frá viðurkenndri matvælavinnslu og ef kjötið sé hrátt séu sérstakar reglur um meðhöndlun á því. Almenna reglan sé sú að slíkur innflutningur sé bannaður en hægt sé að sækja um undanþágu til ráðuneytisins og þá, eins og fyrr segir, sé höfuðkrafa að varan sé frá viðurkenndri vinnslu. Einnig sé krafa um frystiskyldu og kjötinu þurfi að fylgja niðurstöður um salmonellurannsóknir.

Hinsvegar sé ekki kannað hvort kjötið sem notað sé í borgarana sé 100% nautakjöt. Þar segir Þorvaldur að treyst sé á framleiðendur að þeir geri rétt og bendir á að það kæmi til kasta heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði að taka markaðssýni til að skoða innihaldið. Matvælastofnun sé óháð eftirlitsstofnun og hún vinni ekki sjálfstætt slíkar rannsóknir.

Samræmdar skoðanir á innihaldi gerðar en ekki nýlega

Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits Reykjavíkurborgar, segir að markaðssýni úr hamborgurum og öðrum borgurum hafi ekki verið framkvæmt nýlega.

„Núna nýlega hefur þetta ekki verið gert, ekki verið tekin sýni. En það fara oft í gang samræmd verkefni á landsvísu þar sem öll heilbrigðiseftirlitssvæðin og matvælastofnun taka þátt og þá getur verið skoðað innihald og fleira,“ segir Óskar.

Hann segir sama matvælaeftirlit viðhaft með hamborgurum og öðrum innfluttum matvælum.

„Það er í gangi svokallað tilkynningakerfi í Evrópu, RASFF-kerfið, þannig að ef eitthvað kemur upp hjá eftirlitsaðilum, eins og þetta mál á Bretlandi varðandi þessa borgara, þá fer kerfi í gang og er látið vita á milli eftirlitsstofnana í Evrópu,“ segir Óskar.

Hrossakjöt í erlendum hamborgurum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert