Auka menntunarkröfur til sjúkraflutninga

Vegna nýrra krafna um menntun sjúkraflutningamanna er nú leitað lausna …
Vegna nýrra krafna um menntun sjúkraflutningamanna er nú leitað lausna til að viðhalda þjónustu á þeim í Rangárvallasýslu. mbl.is/Hjörtur

„Við erum ekki búin að móta neinar tillögur. Við erum að leita að aðferðum til að viðhalda þjónustustigi og það verður að koma því á hreint í næstu viku. Það er einfaldlega í því ferli,“ segir Þórir Björn Kolbeinsson, yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Rangárvallasýslu, um þróun sjúkraflutninga í sýslunni en umræða hefur skapast meðal íbúa í kjölfar starfsmannafundar hjá heilsugæslunni þar sem mögulegar lausnir voru ræddar.

„Það var innanhússfundur þar sem við vorum að ræða hvernig væri hægt að mæta þessu,“ segir Þórir. Hann segir umræðuna ekki í fullu samhengi við það sem sé verið að vinna með.

Hertar kröfur um menntun sjúkraflutningamanna ástæðan

„Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að það er búið að breyta kröfunum um menntun þeirra sem eiga að starfa á sjúkrabílnum. Nú verður að hafa sjúkraflutningsréttindi eða að vera læknir. Það er ekki nóg að það sé sjúkraliði eða hjúkrunarfræðingur og þá stöndum við frammi fyrir því að okkur hefur gengið illa að manna sjúkrabílana,“ segir Þórir og bætir því við að unnið sé að því að nám bráðatækna verði á háskólastigi hérlendis.

Hafa rætt um að leggja áherslu á forgangsflutninga

Sjúkraflutningum er skipti í fjóra flokka að sögn Þóris. F1 er forgangsútkall með lækni. F2 er forgangsútkall, en ekki endilega þörf á lækni. F3 er sjúkraflutningur sem er tekinn eins fljótlega og hægt er, en ekki lífsnauðsynlegur. F4 eru sjúkraflutningur á milli stofnana. 

„Eitt af því sem rætt var um að myndi vera hægt að gera er að leggja áhersluna á F1 og F2 flokkinn, að deginum,“ segir Þórir en að F3 og F4 yrði mögulega sinnt af sjúkraflutningamönnum í Árnessýslu. „Svo aftur á vöktum værum við með alla okkar flutninga frá Rangárþingi eins og verið hefur,“ segir Þórir sem ítrekar þó að málin séu ennþá til skoðunar og að engar ákvarðanir hafi verið teknar en hann nefnir að ef sjúkraflutningar í sýslunni yrðu teknir upp þar sem læknir yrði ávallt með í för væri það hækkun frá núverandi þjónustustigi.

Þórir Björn Kolbeinsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Rangárvallasýslu.
Þórir Björn Kolbeinsson, yfirlæknir heilsugæslunnar í Rangárvallasýslu. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert